.Ofbeldi.

Ég fór í bíó í gær með Eddu og Erlu og fórum við að sjá Troy í Álfabakkanum. Stundum þegar ég sit í myrkum bíósölum og popphljóðin eru við það að yfirgnæfa myndina hugsa ég um af hverju í andskotanum ég borga 800kr fyrir að sitja í sal fullum af fólki sem ber enga virðingu fyrir mér eða upplifun minni á myndinni. Væri ekki bara skárra að spara sér alla þessa 800 kalla og kaupa sér almennilegt sjónvarp og heimabíókerfi? Þessar hugsanir taka flugið þegar maður lendir í því eins og við í gær að sitja á næsta bekk fyrir aftan heila röð af gelgjum sem skrækja og æpa á milli þess sem þau kasta poppi í hvort annað. Ég skal viðurkenna það að ég var pirruð í gær, mjög pirruð, og mig langaði til þess að skamma þessa krakkaasna fyrir leiðindin. Ég sat þó á mér en stelpa í röðinni fyrir framan þau sneri sér við og sagðist ekki hafa borgað sig inn til þess að hlusta á þau og bað þau óvinsamlegast að steinþegja. Sem að þau gerðu, í eins og fimm mínútur.

Eftir hlé var Erlu nóg boðið af látunum í þessum bjánum og sagði hátt og snjallt við mig svo að þau myndu örugglega heyra að henni finnist að 10 bíó ætti að vera bannað yngri en 16 ára ef að þessi krakkahelvíti geti ekki þagað. Þau áttu þessi ummæli alveg skilið enda voru þau algjör plága. Ekki tóku þau þó þessi tilmæli til sín og ef eitthvað var versnuðu þau um allan helming.

Maðurinn sem sat við hliðina á Erlu var augljóslega kominn með nóg og það fauk svona líka í hann. Hann teygði sig fram, reif í hárið á einum stráknum og hafði við hann hótanir á meðan hann hélt fast í hárið. Hann var mjög hastur og ef að ég hefði verið þessi litli strákur hefði ég eflaust bara farið að gráta. Mannfýlan endaði svo þennan reiðilestur á að slá strákinn í hnakkann. Strákgreyið þagði það sem eftir var.

Það er eitt að biðja fólk um að hafa sig hljótt og stundum þegar að lið eins og það sem sat fyrir framan okkur á í hlut þá neyðist maður til að nota ófögur orð og vera soldið reiður í málrómnum en það er ekkert, EKKERT, sem réttlætir það að leggja hendur á annað fólk. Þessi heimski maður hafði engan rétt á að rífa í hárið á krakkageyinu og því síður að slá hann. Hann hefði aldrei gert þetta við fullorðna manneskju því fullorðinn maður hefði staðið upp og kýlt hann tilbaka. Að ráðast svona á minni máttar er það alaumingjalegasta sem ég veit um og ætti þessi maður að skammast sín. Í alvöru talað, hvað er að fólki? Urrrggghhh!



Auður Ösp kl.14:17 þann sunnudagur, maí 30, 2004


#





.Þessir kexsmiðjustarfsmenn.

Eftirfarandi var tekið af mbl.is:

Lögreglan í Reykjavík elti rúmlega þrítugan mann á mótorhjóli um borgina, sem sinnti ekki stöðvunarmerki eftir að hafa verið mældur á 136 km/klst. á Sæbraut um tvöleytið í nótt. Fór hann yfir gatnamót í tvígang á rauðu ljósi, að sögn varðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík.

Lögregla reyndi að fá manninn ofan af þessu háttalagi með því að kalla á hann í gegnum hátalara en hann sinnti því ekki. Að lokum missti hann stjórn á mótorhjólinu á gatnamótum Bústaðavegar og Ásgarðs og hlaut minniháttar meiðsl. Var hann fluttur á slysadeild.


Þessi tiltekni maður tilkynnti sig veikan í kexsmiðjunni í morgun. Þetta er einmitt sá hinn sami og klessti á ljósastaur á kexsmiðjubílastæðinu um daginn. Ekki nóg með að hann sé staurblindur (haha, náðuð þið þessum STAUR-blindur) þá er hann heyrnarlaus líka. Þessir menn sem ég vinn með, meiri glæponarnir



Auður Ösp kl.17:41 þann miðvikudagur, maí 19, 2004


#





.Áríðandi tilkynning!.

Naktaklúbbsmeðlimir, menn, Þórur og aðrir sem máli skipta!

Júróvisjón Partý á Súlustaðnum næstkomandi laugardag. Mæting upp úr 5. Gestir komi með eitthvað á grillið sjálfir, spurning um að leggja í púkk fyrir meðlæti, pappa diskum og öðrum nauðsynjum. Glápt verður á hina undursamlegu söngvarkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og svo verður bara glaumur og gleði fram eftir kvöldi. Þema kvöldsins er FÁNALITIRNIR og ráða gestir sjálfir hvernig þeir útfæra það. Mottó kvöldsins verður Áfram Jónsi en verðum við því miður að hryggja ykkur með því að Batman Stjörnurnar munu ekki koma til með að vera með límmiða á túttunum þetta árið. Vonum við að sem flestir sjái sér fært að mæta

Áfram Ísland
Nefndin



Auður Ösp kl.17:14 þann miðvikudagur, maí 12, 2004


#





.Mallorcaferðin fræga, 17.maí 2000.

Ég er einstaklega seinheppin kona og ég er aldrei eins óheppin og þegar ég er að ferðast. Nú hugsar kannski einhver að allir séu óheppnir þegar þeir ferðast en það er til margs konar óheppni. Til dæmis hún Edda vinkona mín má ekki bregða sér af landi brott án þess að tollgæslan blandi sér í málið og skiptir þá engu hvort að hún Edda hefur haft kjark til þess að kaupa eitthvað ólöglegt eða ekki. Eða hann Elli sem flutti til Danmerkur og fékk engan farangur og skyrtan sem hann var í hafði að geyma andlit mitt á öxlinni því ég hafði grátið svo mikið þegar ég kvaddi hann að maskarinn og málningin hafði prentast á öxlina á honum. Þetta er óheppni en ég, aumingja ég, er eins og gaurinn í Pure Luck sem var stunginn af býflugunni. Ég er svoleiðis óheppin.

Þegar ég var búsett á Bretlandseyjum þá ákvað ég það einn daginn að ég hefði gott af því að komast í smá frí. Ég ræddi við yfirmanninn og fékk það í gegn að ég fengi viku frí til að halda á vit ævintýranna. Þá, eins og reyndar alltaf, átti ég ekki mikið af aurum og því mátti ævintýrið ekki kosta mikið. Ég lagði land undir fót og skrapp til Reading, gekk þar inn á fyrstu ferðaskrifstofuna sem ég fann, lagði aleiguna á borðið og spurði manninn hvert ég gæti farið. Þetta var nú ekki ýkja há upphæð þannig að í sameiningu ákváðum við að Mallorca væri rétti staðurinn fyrir mig og hirti maðurinn hvert einasta pens sem ég átti. En ég lét mig það engu skipta því ég var á leið í sól, sand og chicos bonitos langt langt í burtu frá ristabrauðinu og gráðostinum sem ég fékk að útbúa í lúxus vinnunni minni í Englandi.

Loks eftir vikutíma var komið að deginum sem ég hafði beðið eftir. Alla vikuna höfðu félagar mínir í eldhúsinu fengið að heyra niðurtalningu í brottför og ég er ekki frá því að þeim hafi verið létt að ég væri loks að fara. Ég sat í mestu makindum í herberginu mínu að pakka þegar að illur grunur læddist að mér. Eitthvað sagði mér að það væri ekki allt með felldu og þegar ég áttaði mig á því hvað það var fann ég hrollinn hríslast upp mænuna. Dagsetninginn á úrinu mínu og flugmiðanum stemmdu ekki. Ég hringdi í miklu óðagoti í ferðaskrifstofuna og krafðist þess að þau segðu mér hvaða dagur væri. Grunur minn reyndist réttur, flugvélin mín hafði farið deginum áður.

Í algjöru áfalli datt mér ekkert í hug til að kippa ástandinu í lag og sá mér þann kost skárstan að fara einfaldlega að væla. Svo hringdi ég í mömmu hágrátandi en það eina sem ég náði að segja áður en síminn minn varð batteríislaus var: "Þetta er hræðilegt" og gott ef ég kom ekki að nokkrum ekkasogum líka. Frávita af áhyggjum af barninu í útlandinu hringdi móðir mín í öll þau númer sem hún hafði til þess að ná í mig án árangurs og er ég ekki frá því að hún hafi elst um nokkur ár þetta eftirmiðdegi. Eins og skrattinn úr sauðalæknum birtist svo allt í einu félagi minn sem ætlaði að keyra mig á flugvöllinn og tilkynnti mér að hann væri tilbúinn að fara. Sem betur fer náði ég í mömmu og sannfærði hana um að allt væri í lagi og því næst hringdi ég aftur á ferðaskrifstofuna þar sem upplýsingafulltrúinn var sjálfsagt enn að klóra sér í hausnum eftir síðasta símtal mitt. Þar kom ég að lokuðum dyrum og vildu þau ekkert gera til að aðstoða mig. Ég skrúfaði enn á ný frá táraflóðinu og viti menn það varð ljós og fyrir fimmtíu pund var hægt að koma mér til Mallorca með öðru flugfélagi. Vandamálið var að ég átti ekki fimmtíu pund, ég átti kannski fjörtíu en félagi minn frá spáni hafði látið mig fá pening í sígarettukaup fyrir hann sem ég ákvað að nota í flugmiða. Gráturinn og ekkasogin höfðu ekki farið framhjá neinum og þar sem að stoltið bauð ekki upp á að ég segði þeim hvað hefði í rauninni gerst bjó ég til hjartnæma sögu um gamla frænku á Íslandi sem var að heygja dauðastríðið. Að bílstjóranum laug ég að seinkun hefði orðið á fluginu og til þess að sleppa frá öllum þessum lygum þá bað ég hann vinsamlegast um að drífa sig af stað svo ég myndi nú ekki missa af fluginu.

Í flugvélinni á leiðinni út sat ég við hliðina á starfsmannastjóra Easy Jet eða eitthvað í þá áttina. Þá var Easy Jet ennþá tiltörulega nýtt félag og þegar að hann heyrði að ég talaði eitt af skandinavísku málunum þá vildi hann óður og uppvægur fá mig í vinnu til sín. Ég sé enn þann dag í dag eftir að hafa ekki hringt í hann til þess að fá viðtal en það er önnur saga. Það var ekki fyrr en að þessi ágæti maður spurði mig á hvaða hóteli ég ætlaði að gista á að ég áttaði mig á því að ég hafði ekki minstu hugmynd um það mál. Ég hafði keypt svokallaðan "late deal" pakka og allar upplýsingar höfðu átt að fylgja flugmiðanum en þar sem ég hafði þurft að kaupa miða með öðru flugfélagi hafði ég ekki fengið þessar upplýsingar. Með fjörtíu pundin mín í vasanum fékk ég vægt móðursýkiskast en sessunautur minn var afar almennilegur og bauð fram aðstoð sína ef allt færi á versta veg. Til allrar hamingju var vél frá flugfélaginu mínu frá Cardiff að lenda á sama tíma og við í Palma og ég fann fararstjóra sem reyndi að hjálpa mér þótt henni væri það þvert um geð. Hún fann mig hvergi á neinum lista hjá sér og ákvað að lokum að senda mig á hótel í Alcudia flóa. Eftir 3 tíma rútuferð og marga fyrirlestra um moskítuflugur og hvað það væri mikið af þeim í Alcudia kom ég loks á hótelið. Dauðþreytt eftir að hafa ferðast í tæpa 16 tíma kom ég inn í móttökuna og hitti þar mjög indæla næturverði. Þeir leituðu að mér á öllum listum líka en aftur þá fannst nafnið mitt hvergi. Hendur þeirra voru bundnar og ég var vinsamlegast beðin um að yfirgefa svæðið. Þrjóskuhausinn íslenski sætti sig ekki við þessa meðferð, settist á farangurinn sinn og tilkynnti spanjólunum að hún ætlaði ekki að fara fyrr en hún fengi herbergi. Þessar mótmælaaðgerðir náðu tilætluðum árangri að lokum og í skiptum fyrir vegabréf fékk ég lykil. Þegar þarna var komið við sögu var ég hætt að sjá sökum þreytu og ég skjögraði einhvern veginn í stað þess að ganga. Úti í myrkum hótelgarðinum varð ég svo fyrir því óláni að rennilásinn á bakpokanum mínum gaf sig og allt dótið mitt flaug út um allt. Ég hrifsaði ferðageislaspilara og fleira til mín og í móki fór ég upp á herbergið mitt og náði varla að loka hurðinni áður en ég var steinsofnuð.

Morguninn eftir vaknaði ég eftir svo gott sem engan svefn og mig verkjaði í magan af hungri. Þegar ég fór í gegnum hrúguna sem hafði verið í bakpokanum mínum uppgötvaði ég mér til mikillar skelfingar að seðlaveskið mitt var horfið. Það hlýtur að vera að mér hafi yfirsést það í myrkrinu og ég hálfpartinn datt aftur í rúmið mitt. Hvað næst? Með garnagaul og bauga fór ég í móttökuna og viti menn, veskið mitt var þar. Sá sem fann það hafði verið svo vænn að skila því en áður hreinsaði viðkomandi alla peningana mína úr því. Kortin mín skildi hann eftir, sem betur fer, því ég átti 10 pund á debetkortinu sem dugðu mér í einhverja daga áður en ég fékk útborgað.

Annars gerðist ekki mikið þessa 6 daga sem ég var á eyjunni annað en það að ég sá varla sólarglætu allan tímann. Nema síðasta daginn þegar ég þurfti að koma mér út af herberginu fyrir klukkan 12 og ég pakkaði öllu sem hét sólarvörn niður í ferðatösku og tölti á ermalausum bol inn í bæinn. Þá lét sólin að sjálfsögðu sjá sig og ég skaðbrann á öxlunum. Svo seinkaði flugvélinni heim og svo var ekki hægt að lenda á Heathrow, Gatwick né Stansted sökum þoku. Vélin fékk lendingarleyfi á Luton sem var langt í burtu frá öllu og flugvöllurinn ekki beint í stakk búinn að taka við vél af þessari stærð. Við fengum lestarmiða til Gatwick og biðum á lestarstöðinni í Luton í 2 tíma eftir fyrstu lestinni. Svo þurfti ég að koma mér til London og kom ég þangað skaðbrunnin og útkeyrð klukkan rúmlega sex um morguninn eða um svipað leyti og fyrsta fólkið fer að tygja sig til vinnu í London. Ég var einum degi of snemma á Englandi samkvæmt ferðaplaninu sem starfsfélagar mínir höfðu og ég hafði ætlað að fara beint á Standsted að hitta Ástu sem var að koma til mín. Ég hafði ekki hugmynd hvernig ég ætti að útskýra þetta klúður og ef ég hefði ekki verið á kúpunni hefði ég fundið mér ódýrt hostel og lagst niður og sofið í svona sólarhring. Á endanum gafst ég upp, tók lestina heim og sagði aldrei sálu af hverju ég hefði komið degi fyrr heim úr fríi aldarinnar.



Auður Ösp kl.12:18 þann mánudagur, maí 10, 2004


#





.Kjötmarkaðsleikurinn.

Þú ferð í sturtu. Rakar á þér lappirnar. Rakar undir höndunum og fjarlægir önnur hár sem þykja ekki æskileg. Þú smyrð á þig kremum með sætri angan. Þú setur á þig svitalyktaeyði sem skilur ekki eftir sig hvítt duft í fötunum þínum. Þú sprautar á þig ilmvatni og ert þar með búin að bæta þriðju lyktinni á líkamann. Þú blæst á þér hárið. Þú setur á þig meik. Þú sléttar hárið og setur í það vax. Þú tekur eftir því að þú þyrftir að plokka á þér augabrúnirnar. Þú plokkar á þér augabrúnirnar og sérð eftir því um leið. Þú treður þér í undrahaldarann og sjokköpp buxurnar. Þú ferð í sömu föt og helgina áður af því að þú veist að þú lítur vel út í þeim og að bolurinn ýkir á þér brjóstin. Þú ert kvennréttindakona en það er ekkert að því að sýna smá skoru. Þú málar á þig andlit. Þú hoppar í hælaskóna, drekkur fjóra stóra bjóra og ert kominn í gírinn. Þú ert tilbúin. Peð í kjötmarkaðsleiknum góða og þú spilar með til að vinna. Hér duga engin vettlingatök. Þú verður ekki ánægð fyrr en þú ert komin með ljósabekkjabrúnan og herðabreiðan karlmann upp á arminn. Einn með öllu. Rétta bílinn, réttu menntunina, rétta starfið svo ekki sé minnst á réttu fötin. Þú setur upp veiðisvipinn þegar þú kemur í bæinn og þú sérð fyrsta fórnarlambið og hann sér þig. Leikurinn er hafinn.

Ég er orðin svo leið á þessum leik. Kannski er það af því að ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góð í að spila hann. Ég er yfirleitt komin með lykkjufall um leið og ég stíg inn fyrir þröskuldinn þegar ég mæti í gleðskapinn. Ég fer beint inn á baðherbergi og geri hið ófyrirgefanlega og gramsa í baðskápunum. Búa ekki konur á þessu heimili? Það hlýtur að vera til naglalakk. Ég læt mér duga að spreyja mig hátt og lágt með gömlu mygluðu hárspreyi frá móður húsráðanda. Ég finn hvernig sokkabuxurnar eru límdar við mig og ákveð að fara ekki meira á salernið það kvöldið til að vernda það sem er eftir af þeim. Held það út í um það bil hálfan bjór og er svo fremst í flokki að berja á baðherbergisdyrnar þegar að einhverju parinu dettur í hug að krydda kynlífið sitt með sjortara á snyrtingunni. Svo fer ég í bæinn með hinum fíflunum full bjartsýni um það að þetta sé kvöldið sem ég hitti hinn eina rétta. Ég ætla samt ekki að sofa hjá honum. Ekki í kvöld. Maður verður aðeins að láta þá bíða. Svo að þeir beri virðingu fyrir manni. Það verður aldrei til samband úr svona einnar nætur gamni.

Hópurinn kemur inn á skemmtistað kvöldsins með látum og dreifist um svæðið. Allt í einu stend ég þarna ein enn með lykkjufallið á heilanum og neita að færa mig frá barnum svo það sjáist ekki. Ég horfi í kringum mig og sé ekkert sem mér líst á. Bíddu við. Þarna er einn. Brosi. Hann sér mig ekki svo ég ákveð að gefa svolítið meiri tilfinningu í augnaráðið sem ég er að senda honum. Hann horfir til mín og ég brosi mínu breiðasta með brjálæðisglampa í auganu og hann verður hræddur. Kippir í vin sinn og fer. Allt í lagi, algjör óþarfi að láta fyrstu neitun kvöldsins koma sér úr jafnvægi. Bara kaupa sér annan bjór og reyna aftur. Þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið svo ég skelli bjórnum í mig í tveimur gúlsopum. Hey þarna er annar.

Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir ákveð ég að það sé bara gott að vera einhleyp og ákveð að ég hafi ekkert við karlmann að gera. Fæ mér annan bjór. Kellmenn eru sjvín. Bjórinn er farinn að hafa áhrif. Kannski að ég hafi haft rangt fyrir mér. Það eru þónokkrir myndarlegir menn á þessum stað. Þegar betur er að gáð þá eru þeir allir fjallmyndarlegir og þarna kemur einn töltandi til mín þar sem ég stend enn við barinn að fela lykkjufallið. Við skiptumst á nokkrum orðum. Bla bla bla, háskólanum. Bla bla bla, var að koma úr löngu sambandi. Bla bla bla gavöð þúrt svo falleg.

Við verðum uppiskroppa með umræðuefni og stöndum eins og hænsn á priki við barinn. Hann lítur til mín og brosir eins og auli. Mikið rosalega er maðurinn myndarlegur. Gegn betri vitund og eigin siðferðiskennd stekk ég á manninn og kyssi hann. Hann tekur á móti og upphefst mikill tunguslagur. Enn stend ég við barinn og ég halla mér upp að honum. Gæinn hallar sér yfir mig og starfsfólkið á barnum fær að sjá atburðinn í beinni algjörlega óumbeðið. Hann hvíslar í eyrað á mér hvort við ættum kannski að kíkja heim til hans. Ég hugsa mig um á meðan hann gælir við hálsinn á mér og miðpartur líkama míns tekur völdin. Bíddu ég sæki jakkann minn.

Leikurinn magnast í leigubílnum. Höndin á honum er kominn inn fyrir pilsið og leigubílstjórinn fylgist spenntur með framgangi mála. Hann býr ennþá heima hjá mömmu og pabba svo við verðum að hafa lágt. Fötin fjúka. Stroka hér, koss þar. Nei nei, hvað ertu að gera? Farðu úr sokkunum. Inn. Út. Búmm. Búið. Ha er þetta búið?

Ég ligg þarna óþægilega nakin og reyni að muna hvað maðurinn heitir. Rifja upp fögur loforð um skírlífi. Ekki mikið fyrir því að fara nú. Maðurinn hrýtur eins og hann fái borgað fyrir það. Voðalega er hann með stórt nef og lítil augu. Skrýtin á honum hakan líka og mikið rosalega er hann loðinn á bringunni. Lopapeysa bara. Dagsbirtan treður sér í gegnum skítugar rimlagardínurnar og ég finn þynnkuna með öllum hennar dásemdum færast yfir. Verð að komast á baðherbergið. Verð að gera númer tvö og það á ókunnugu klósetti. Skvetti vatni í andlitið. Verð að komast heim til mín. Ætli hann eigi bíl?

Gripurinn hrýtur enn og hærra ef eitthvað er. Heyrðu. Þú þarna. Öööhhh Jói? Áttu nokkuð bíl? Ekki? Nú jæja. Útskýri hvernig ég verði að fara. Gef honum númerið mitt. Hringi í þig á morgun sæta. Ég labba út í sokkabuxunum sem þoldu ekki hamaganginn með málningarleifar í andlitinu. Hárið er allt úfið og pilsið full stutt fyrir hábjartann daginn. Hoppa upp í strætó þar sem ég mæti glottandi bílstjóra sem veit alveg hvað ég var að gera. Sest niður. Fer yfir kvöldið til að finna líklegar skýringar fyrir þessari uppákomu. Kemst ekki að neinni niðurstöðu. Vona og veit að hann hringir ekki. Þetta var ekki sá eini rétti.

*Að gefnu tilefni vil ég benda á að þessi færsla er hreinn uppspuni þótt hún byggi á sameiginlegri reynslu margra kvenna. Þetta valt bara svona upp úr mér og þar sem ég hef verið ódugleg við að blogga ákvað ég að láta þetta fljóta... ÉG í þessari færslu er ekki ég Auður. Takk.



Auður Ösp kl.22:22 þann mánudagur, maí 03, 2004


#









.Daz Gebbz. .Ázta. .Early. .Áza. .Znóra. .Cliff. .Ziggy.


  • mars 2003
  • apríl 2003
  • maí 2003
  • júní 2003
  • júlí 2003
  • ágúst 2003
  • september 2003
  • október 2003
  • nóvember 2003
  • desember 2003
  • janúar 2004
  • febrúar 2004
  • mars 2004
  • apríl 2004
  • maí 2004
  • júlí 2004
  • október 2004
  • nóvember 2004
  • desember 2004
  • janúar 2005
  • febrúar 2005
  • maí 2005
  • ágúst 2005
  • mars 2007