Sauðurinn snýr aftur

Hef ákveðið að snúa aftur með breyttu sniði eftir jól. Ég er hvort eð er of upptekin til þess að skrifa hérna þessa dagana og það var kominn tími til breytinga.... ég mun tilkynna það vel og rækilega þegar ég hef ákveðið að opna á mér trantinn aftur en þangað til segi ég bara Gleðilega hátíð



Auður Ösp kl.00:03 þann föstudagur, desember 19, 2003


#





Bless Bless

Þar sem ég er augljóslega algjörlega kolómöguleg á alla kanta, kann ekki að kommenta án þess að allir verði brjálaðir, er augljóslega að halda út annari síðu undir dulnefninu "laumulesari" þá hef ég ákveðið að ljúka þessu hér með. Ég ætla ekki að skrifa meira á þessa síðu, þetta var skemmtilegt stundum, ekki jafnskemmtilegt alltaf og núna er það búið.

Takk fyrir og bless



Auður Ösp kl.23:18 þann fimmtudagur, desember 11, 2003


#





Hmmm

Spáiði í því ef að allir gætu lesið hugsanir ykkar en enginn myndi segja ykkur frá því. Maður hugsar oft miður fallega hluti um fólk og eina ástæðan fyrir því að maður leyfir sér það er að það er enginn sem heyrir það. Hvað ef að einhver heyrir það?

Þegar ég var lítið neitaði ég að hátta mig af því að ég var viss um að það væru myndarvélar í herberginu mínu. Þetta var eitt af þessu sem ég sá í einhverri bíómynd og gat ekki hætt að hugsa um. Talandi um ofsóknarbrjálæði.

Ég fékk líka martraðir í heilt ár um að tígrísdýr æti mömmu mína eftir að ég heyrði að eitt slíkt hefði sloppið út dýragarði í Kína. Ég var sannfærð um að það gæti ferðast á ísjaka hingað til lands. Ég skil ekki í móður minni að hafa ekki losað sig við þennan fjandans útvarpsvekjara sem virðist hafa verið uppspretta margra hryllilegra atburða í mínum huga.

Ég lét líka langömmu mína lesa allan texta af sjónvarpinu fyrir mig. Það er ástæðan fyrir því að ég var læs áður ég fór í skóla, konugreyið hlýtur að hafa bara gefist upp. Djöfull hlýt ég að hafa verið erfitt barn.



Auður Ösp kl.02:19 þann miðvikudagur, desember 10, 2003


#





Loksins

Vá, helvítis blogger er búinn að vera niðri í allan dag og ég er alveg búin að vera á þörfinni að tjá mig. Ég nenni ekki að skrifa núna af því að ég er svo þreytt en ég vildi samt kvarta og kveina yfir blogger smogger.

Á meðan ég man, Þóra og Birna voru kýldar af marakóskum manni í gær. Hann lamdi Birnu í hnakkann þannig að hún féll í jörðina og kýldi hana svo í andlitið þannig að hún fékk glóðurauga. Þóru lamdi hann í framan líka og er hún marin á kjálkanum og á löppinni því hann traðkaði á henni. Og hann hrækti á Þóru. Ok, veit reyndar ekki hvort hann var frá Marokkó en hann hafði það útlit. Talaði líka mikið um óvirðinguna sem íslendingar sýna honum. Af því að það er alveg í lagi að lemja stelpur!! er ekki hissa á að hann njóti ekki mikillar virðingar ef hann stundar það. Djöfulsins helvítis drullutussa og hálfviti!!! Jói frændi, nú skiluru af hverju ég má segja að karlmenn séu svín!!!

Er of reið til þess að ræða þetta mál frekar, hann skal sko passa sig að rekast ekki á hana Þóru mína á labbinu. Eða mig. Og bara svo þið vitið það gerðu þær ekkert til að eiga þetta skilið, ekki neitt!! Andskotans fífl






Auður Ösp kl.23:26 þann sunnudagur, desember 07, 2003


#





Til umhugsunar

Í dag eru 18 dagar til jóla. Við höfum 18 daga í viðbót til þess að sleppa okkur í hamslausum peningamokstri í alls kyns óþarfa sem tengist hinum sanna boðskap jólanna lítið. 18 daga til að kaupa Playstation 2 og gsm síma handa börnunum okkar. 18 daga til þess að eyða meiri fjármunum en margir sambræðra okkar hér á þessari jörð sjá alla ævi og þetta gerum við með hreinni samvisku því það eru nú einu sinni jólin.

Við hér á þessari eyju lifum í landi allsnægtanna og það eru fáir sem þurfa að líða raunverulegan skort. Hér teljumst við fátæk ef það er aðeins eitt sjónvarðstæki á heimilinu og fjölskyldubílinn var keyptur fyrir 1990. Það eru að vísu til fólk sem ekki hefur í sig eða á en það eru nú bara eintómir dópistar og aumingjar sem geta sjálfum sér um kennt. Við getum ekki látið nokkra gagnslausa iðjuleysingja skyggja á jólagleðina hjá okkur. Við vinnum hörðum höndum árið um kring og eigum skilið að slaka á í faðmi fjölskyldunnar einu sinni á ári.

Á þessum tíma árs öðrum fremur ber okkur að muna að það eru ekki allir jafnlukkulegir og við að fæðast í slíku gósenlandi sem Ísland er. Milljónir manna um heim allan þjást af hungri og skorti. Hefur þetta fólk ekki jafnan rétt á gleðilegum jólum og við? En það er ekki bara úti í hinum stóra grimma heimi sem fólk á um sárt að binda. Hér á Fróni kvíða margir jólamánuðinum allt árið því þeir vita að fátt verður um góða drætti. Ekki verða til peningar fyrir jólasteikinni og hvað þá gjöfum handa ástvinum. Stærum við okkur ekki alltaf af því að vera ein stór fjölskylda sem gerir allt til að styðja aðra meðlimi hennar? Viljum við að einhver úr fjölskyldunni okkar líði skort og eigi ekki einu sinni brauð til þess að borða á jólunum?

Næst þegar þú stendur í röð á kassa í Hagkaupum með fulla kerru af tilgangslausu drasli skalt þú hugsa hvernig þú getur lagt þitt af mörkunum svo að öll fjölskyldan geti átt gleðileg jól. Munum að það er sælla að gefa en þiggja og að margt smátt gefur eitt stórt.



Auður Ösp kl.00:45 þann laugardagur, desember 06, 2003


#





Helvítis áramót

Djöfulsin helvítis... ég var svo miður mín í öllum þessum alnæmislestri í gær að ég áttaði mig alls ekki á því að það er kominn desember. Hvernig í ansanum má það vera að þessi mánuður kaupæðis og almennrar geðveiki sé kominn?? Ég bara á ekki til orð, tíminn flýgur og hann flýgur meira að segja hratt. Bráðum verða kertin á kökunni 23 og ég verð hreinlega að viðurkenna að ég hélt nú alltaf að ég myndi ekki lifa til þess að sjá svo mörg kerti. Komst í Nostradamus á unga aldri sjáið til og hef lifað í skugga heimsendis æ síðan. Er hálffegin samt, ég hefði til dæmis aldrei kynnst Bisbal ef að ég hefði drepist árið 2000 eins og spáin gerði ráð fyrir. En ég ætla nú að gera öllum mínum lesendum greiða bara og sleppa því að minnast meira á spán, held að allir séu búnir að fá nett slétt leið á því.

Aftur á móti ætla ég að minnast á frægt nöldurefni á þessum bæ, helvítis áramótin. Það eru liðnir tveir dagar af desember og ég er búin að fá spurninguna um hvað ég ætli að gera um áramótin allavega sjö sinnum nú þegar. Ég hef ekki hugmynd hvað ég ætla að gera um áramótin þetta árið frekar en önnur. Það stefnir allt í að við bróðir minn munum sitja á súlustaðnum yfir fiskibollum það er þar til einhver félaga hans aumkar sig yfir hann og býður honum í mat. Þá verður það bara ég ein með fiskibollunum. Hver borðar fiskibollur um áramót kosiner?

Þannig að ég ætla hér með að biðja ykkur að minnast ekki þessi áramót í mín eyru. Ég er að hugsa um að bara sleppa þeim þetta árið og fara að sofa eftir skaupið. Djöfull hata ég að vera skilnaðarbarn um hátíðarnar og sérstaklega þegar að foreldrið sem ég held upp á stingur af í þórsmörk yfir áramótin. Kannski að maður setji upp auglýsingu hjá mæðrastyrksnefnd og bjóði einhverri einstæðri móður í mat eða eitthvað, geri góðverk svona einu sinni. Nei, verð frekar fúl á móti og tek ekki þátt í þessari vitleysu. En ég er nottla búin að búa til kórónu... nú jæja, hún verður þá bara notuð í febrúar til að fagna óvæntu kertunum 23.



Auður Ösp kl.17:06 þann þriðjudagur, desember 02, 2003


#





ALNÆMI

Ég vil bara benda á að það í dag er ekki bara fullveldisdagur okkar Íslendinga heldur er alþjóðlegi alnæmisdagurinn einnig í dag. Ég mæli með að við opnum augun hérna á klakanum fyrir því að þetta er alvörumál og ef þið ekki trúið því skuluð þið bara kíkja á www.unaids.org. Til gera grein fyrir alvarleika málsins þá er til dæmis hægt að benda á að á 12 árum fór tíðni smitaðra í Suður-Afríku frá því að vera undir einu prósenti upp í rúmlega 20. Ég las um daginn að sú tala væri nú komin upp í 25% en það þýðir að fjórði hver maður í Suður-Afríku greinist með HIV. Það er líka sjokkerandi að lesa að 5% þeirra sem greinast í þriðja heiminum fá þá læknishjálp sem þeir þurfa, 5%!!! Kofi Annan gengur meira að segja svo langt að segja að heimurinn hafi tapað stríðinu gegn þessum skæða sjúkdómi.

Notum smokkinn krakkar mínir og pössum okkur!!!



Auður Ösp kl.15:01 þann mánudagur, desember 01, 2003


#









.Daz Gebbz. .Ázta. .Early. .Áza. .Znóra. .Cliff. .Ziggy.


  • mars 2003
  • apríl 2003
  • maí 2003
  • júní 2003
  • júlí 2003
  • ágúst 2003
  • september 2003
  • október 2003
  • nóvember 2003
  • desember 2003
  • janúar 2004
  • febrúar 2004
  • mars 2004
  • apríl 2004
  • maí 2004
  • júlí 2004
  • október 2004
  • nóvember 2004
  • desember 2004
  • janúar 2005
  • febrúar 2005
  • maí 2005
  • ágúst 2005
  • mars 2007