Ég tók tvær spólur í gær og voru þær hin ágætasta skemmtun. Fyrri myndin sem ég tók heitir Y tú mama tambíen og er það mexíkósk mynd um tvo 17 ára stráka sem fara í ansi fróðlegt ferðalag með 28 ára gamalli konu sem heitir Luisa. Þessi mynd kom skemmtilega á óvart en ég tók hana aðalega af því að mér fannst titillinn svo fyndinn. Svo tók ég líka Perez fjölskylduna þannig að það má segja að það hafi verið smá svona latinoþema í gangi hjá mér í gær. Mér fannst hún bara fín en sambýlingurinn var ekki á sama máli :ógeðslega leiðinleg! Við sambýlingurinn erum sjaldnast sammála um nokkurn skapaðan hlut svo þessi skoðanaágreiningur kemur ekki á óvart. Um daginn tók ég indverkst/pakistanskt þema og horfði á East is East, Monsoon Wedding og Bend it like Beckham og fannst mér þær allar mjög góðar og þá sérstaklega East is East og Monsoon Wedding. Mæli með svona þemakvöldum!

Ég er soldið dottin inn í það að horfa á Omega af og til. Ekki það að ég sé nú allt í einu frelsuð og fái í mig heilagan anda á samkomum hjá krossinum en þetta er mjög áhugaverð stöð fyrir margar sakir. Umræðuþátturinn um Ísrael-Palestínu málið var til dæmis sérstaklega áhugaverður enda eru það Vinir Ísrael sem sjá um þann þátt. Ísraelski fáninn hékk um allt í settinu (sem er það sama og í öllum öðrum þáttum) og umræðan var frekar einsleit. Svo er það Joyce Meyers sem er alls ekki svo vitlaus kona og það er mikill boðskapur í sumu sem hún segir ef maður tekur guð og amen dótið út úr því. Svo er Gunnar í krossinum með þætti núna fyrir kosningar þar sem hann spyr forystumenn flokkana um málefni sem honum finnst skipta máli. Ég greip niður í þátt með verkfræðingnum þarna, Nýtt afl eða T-listi, Þórarinn held ég að hann heiti. Ég veit ekki hvort að sá maður er í rauninni trúaður eða hvort hann var að reyna að krækja sér í atkvæði sértrúarsafnaða en hann vitnaði alveg hægri vinstri í biblíuna og deildi með áhorfendum trúarupplifun sem fólst í því að allt í einu skildi hann að Jesú ER ljósið vegurinn og sannleikurinn en ekki bara lukt, malbik og ja, ég veit ekki, sannleikslyf. Mér fannst manngreyið aðeins of mikið að reyna og svo er Gunnar náttúrulega snarbilaður og túlkaði svörin eins og honum sýndist. Svo er það rúsínan í pylsuendanum. Ég datt inn í þátt um daginn sem heitir Purity Power. Þar sátu eldri hjón í settinu og þau voru að ræða við unga stelpu sem virtist vera að játa gamlar syndir. Það var svolítill Oprah bragur á þessu hjá þeim og stelpu greyið var alveg með kökkin í hálsinum. Ég hugsaði með mér að hún hlyti að hafa verið forfallinn dópisti og vændiskona því svo alvarleg voru þau öll. Eftir að hafa horft á þetta í doldin tíma fattaði ég hvaða dauðasynd hún hafði framið..... haldið ykkur í sætin.... hún svaf hjá kærastanum sínum áður en þau giftu sig!! Og svo hringdi svínið aldrei í hana eftir það sem kemur nú ekki á óvart. Þátturinn snerist sem sagt um það að þau voru að promote-a hljóðsnældur í fjórum bindum sem eiga að stuðla að því að ungar konur fari ekki af beinu leiðinni og eigi líkamlegt samræði með karlmönnum. Og einhvern veginn var þetta allt mömmunni að kenna því þegar að stelpan var tólf ára og varð skotin í strák hvatti mamman hana áfram (í staðinn fyrir að setja hana í skírlífsbrók og loka hana uppi á hálofti?). Og allt í einu snérist umræðan upp í það að foreldrar ættu ekki að leyfa börnunum sínum að fara í skólabílnum í skólann. Þetta væri bara siðspilltast staður á jarðarkringlunni þar sem að börnin lærðu ljót orð og allt sem þau vildu vita um kynlíf. Þetta var svona eins og þetta væri bara argasta klámbúlla á hjólum þar sem börnin þeirra (saklausu?) umgangast óþverralýð sem segja Typpi og Píka. Ef það er eitthvað verra en bandaríkjamenn þegar það kemur að svona málum þá eru það trúaroftækis bandaríkjamenn. En þátturinn hafði ágætis skemmtanagildi fyrir mig. Og stelpan sem hafði verið svona vond var búin að finna Guð á ný og gat sæst við sjálfa sig því hún er núna "Recycled Virgen". Ég er soldið hrifin af þessu hugtaki hjá henni þótt ég sé ekki sammála öðru sem hún sagði. Það er stundum skemmtilegt að horfa á Omega....



Auður Ösp kl.18:03 þann miðvikudagur, apríl 30, 2003


#





Nú er undirrituð búin að búa í tuttugu og tvö ár, tvo mánuði og tuttugu og tvo daga á þessu skeri hérna í Norður-Atlantshafi (fyrir utan ca. 14 mánuði sem var eytt á erlendri grund) og furðulegt veðurfarið er enn að koma mér á óvart. Í gær sat ég úti á Kaffi París og sleikti sólskinið með miss Spears. Það var karnival stemming á Austurvellinum og fólk var bara farið að fækka fötum og læti. Svo í morgun, innan við sólarhring seinna, var ég á leið í vinnu og það var ekki rigning eða slydda og ekki snjókoma né haglél, heldur einhver undarleg úrkoma þarna mitt á milli. Það var hlýtt og það var vorlykt í lofti en hvítar flygsur hröpuðu niður úr himninum. Mjög skrýtið!

Við Gebba Spears fórum og heimsóttum endurnar á tjörninni í gær. Einhverra hluta vegna þá var ekki einn einasti svanur á tjörninni og ákváðum við að þeir hlytu að vera á einhverju svona flokksþingi einhversstaðar að ræða komandi kosningar (þótt miklu líklegri skýring sé auðvitað að þeir fari eitthvað annað yfir varptímann). Annars var krökkt af mávi og kríum og eru þetta ansi frekir fuglar að mér finnst. Þeir gögguðu í hausinn á öndunum til að ná í brauð og beittu alls kyns óþokkabrögðum. Ég man ekki eftir að hafa séð svona mikið af mávi þarna áður en ég er nú kannski engin sérstök áhugamanneskja um fugla og stunda tjörnina ekkert af ráði. Við vorum að velta því fyrir okkur hvort að ástæðan fyrir svo miklum fjölda af mávum væri kannski fjarvera svansins, þeir eru nottla stærri og kannski stendur mávunum ógn af þeim og nota tækifærið um leið og þeir fara og gagga í hausinn á greyið öndunum. Je minn eini.... ég er að tala um fuglalífið á tjörninni. Ég er að verða gömul!

En aðeins meira um fugla áður en ég hætti. Í gær fórum við sambýlingurinn í Elliðárdalinn og fengum okkur smá göngutúr. Við löbbuðum heil ósköp og á leiðinni sáum við nokkur andapör á vappi. Kerlingin vappaði um með karlinn á hælunum og þetta var bara alveg ótrúlega krúttlegt. Ég vissi ekki að þau færu svona tvö og tvö saman í burtu frá hópnum. Þetta minnir á svona rómantískar helgarferðir fyrir tvo hjá okkur mannfólkinu. Já Bíbí mín, þú komst nú undir þegar við pabbi þinn skruppum í Elliðárdalinn vorið 2003, brahaha! Sambýlingurinn vill meina það að endur maki sig fyrir lífstíð en ég hélt alltaf að það væru bara mörgæsir og höfrungar. Hvort sem að þær finna sér nýjan maka á hverju vori eða hvort þær eru saman forever and after þá held ég að það væri mjög gott að vera önd. Ég þykist nokkuð viss um að steggirnir reyni ekki að bjóða kellingunum borgun fyrir kynlíf og þær eiga enga síma svo þeir geta ekki logið að þeim að þeir ætli að hringja í þær. Í næsta lífi ætla ég að vera önd.



Auður Ösp kl.12:47 þann


#





Sumarfrí -sumarsmí! Deildarstjórin minn kom áðan og tilkynnti mér það að ég þyrfti að fara að ákveða mig hvenær ég vil taka sumarfrí. Nú þegar er búið að panta 12.júlí til 12. ágúst þannig að ég þarf að taka mitt frí utan þess tíma. Ég er komin í smá dilemmu eins og Gerður danska um daginn því ég hef ekki hugmynd hvað ég á að gera við þetta sumarfrí. Ég hef aldrei fengið svona frí áður ég átta mig nú bara ekkert fullkomlega á því hvað fólk gerir í þeim. Ekki nóg með að vita ekki hvað ég á að gera þá bættist sem sagt við í dag vandamálið með að ég veit ekki hvenær ég á gera það. Ohhh.... vesen. Það eru nokkrir hlutir uppi á teikniborðinu en það er bara svo erfitt að velja:

1. Heimsókn til Ella í Svíaveldi. Augljós kostur þess að heimsækja Ellann minn er Ellinn sjálfur sem er búinn að vera í burtu fulllengi að mínu mati. Það væri mjög notalegt að fá smá Ella-lovin og sól því sumrin í Svíþjóð eiga víst að vera góð. Ókostirnir eru þeir að það kostar peninga að fara til útlanda og í júní á ég ekki næga peninga og svo veit ég ekki hvort Ellinn verður ennþá í Svíþjóð í ágúst. Hann veit það ekki heldur og það væri heldur súrt að panta flug og sumarfrí og svo væri maðurinn bara ekki þar.

2. Hringferð um Ísland Mig hefur alltaf langað að fara hringinn um Ísland og skoða mig um því það er ótal margt sem ég á enn eftir að sjá. Kostirnir eru að það er hægt að kaupa svona hringmiða um landið á BSÍ þannig að hægt er að hoppa af þar sem maður vill á hringveginum. Svo á maður kunningja og skyldfólk sem hægt væri að gista hjá og spara þannig pening í gistikostnað. Ókostirnir eru að íslenskt veðurfar er óútreiknanlegt og svo fengi ég örugglega engan með mér í þetta ævintýri.

3. Fara á sólarströnd Ég sé sól og cerveza í hillingum og væri alveg til í að næla mér í smá freknur. Aftur er peningahliðin vandamál og svo þetta með að fá engan með sér. Ég hef reynslu af því að vera ein á sólarströnd og það er ekki það skemmtilegasta. Vegna sömu reynslu og búsetu minnar í Torremolinos kann ég líka að lifa spart á þessum stöðum þannig að það er nottla kostur. Og auðvitað sólin!

4. Gera nákvæmlega ekki neitt og bara liggja á svölunum í sólbaði Hljómar vel en er hrædd um að fá dauðleið eftir smá því allir aðrir verða að vinna eða verða erlendis og þá verð ég ein og öfundsjúk í þokkabót. Svo er veðrið svo asnalegt hérna á Íslandi þannig að það gæti rignt allan tímann og hvað gera bændur þá? Ekki nema að ég fái lánaða Playstation einhvers staðar og húki í tvær vikur í tölvunni. Þá verður maður ekki brúnn. Nema nottla mar fari bara í ljós.

Eins og sést er þetta mikið vandamál og ég bara klóra mér í hausnum og veit ekkert hvað ég á að gera. Og ég þarf helst að vera búin að ákveða mig fyrir fimmtudaginn. Je dúdda...



Auður Ösp kl.18:17 þann mánudagur, apríl 28, 2003


#





Ég var að lesa gömul e-mail frá Spáni og fannst allt í einu snilldarhugmynd að telja hversu oft ég skrifaði Irish og Barþjónar. Nú eftir aðeins 5 meil gafst ég upp og þá var tölurnar orðnar Irish = 35 og Barþjónar = 18. Eitthvað segir mér að við höfum eytt of miklum tíma á Irish Rover.



Auður Ösp kl.15:47 þann sunnudagur, apríl 27, 2003


#





Loksins er þessi vinnuhelgi að verða búin og nú er bara einn dagur í að ég fái frí. Eftirvinnuhelgarfríin eru alltaf tilhlökkunarefni þótt maður geri ekki annað en bara sofa fram á hádegi og reyna svo að taka til. Ég bara elska að vera heima hjá mérí bleiku inniskónum mínum og lufsast eitthvað. Ég er sammála máltakinu sem segir að heima sé best.

Í gærkvöldi var loksins gleðskapur hér í "kexsmiðjunni" og var matvörubúðargenginu líka boðið. Jói frændi og kærastan hans komu aðeins heim til mín áður en við hittum liðið á kaffi 11 en þau höfðu aldrei áður komið þangað. Það eina sem þau vissu þegar þau lögðu af stað var að ég ætti heima í bökkunum og að það væri skilti í eldhúsglugganum sem á stæði að karlmenn væru svín. Ég kalla þau nú bara nokkuð góð að finna þetta. Allavega.... mætingin á 11 var nokkuð góð þótt kexsmiðjustarfsmenn hefðu mátt vera fleiri. Vil hér með hrósa þjónustudeildinni og lagernum fyrir að halda uppi fjörinu! Það sniðuga við 11 er að á efri hæðinni er að finna fótboltaspil og fór ég alveg hamförum á því þótt ég hafi reyndar í tvígang þurt að lúta í lægri haldi fyrir matvörubúðarstarfsmönnum. Ég vil samt koma því á framfæri að einn þeirra er með fótboltaspil heima hjá sér þannig að það er ekki alveg sanngjarnt. Mig langar sko í svona græju og stefni að því í framtíðinni að eignast hana.

Ég er alveg að tapa mér í einhverju svona nostalgíu flippi þessa dagana. Ég keypti mér snú snú band um daginn og fór í snú snú með systrum mínum eftir að hafa gegnið um allt smárahverfið blásandi sápukúlur. Svo gróf ég upp gömlu Game Boy tölvuna mína, þið vitið svona gráan hlunk sem kom á undan flötu marglitu tölvunum, GB color, GB Advanced og nýju SP tölvunni og skemmti mér konunglega í Super Mario Land á meðan ég beið eftir strætó í gær. Í dag hugsa ég ekki um annað en hvað mig langar í teygjutvist og fuglafit og svo langar mig ofsalega mikið í litabók. Hvað ætli þessi árátta mín í barnaleiki þýði eiginlega? Það var bara svo gaman þegar maður bankaði á allar hurðir í hverfinu og spurði eftir krökkum út í leiki. Ég veit ekki hversu oft ég fór í Dimmalimm og myndastyttu leikinn eða stórfiskaleik. Gera krakkar þetta ennþá? Ohhh mig langar út í leiki. Viljiði vera memm?



Auður Ösp kl.13:59 þann


#





Ég var að uppgötva lítinn gullmola í morgun. Sambýlingurinn keypti Norah Jones í Ameríkunni og ég ákvað að nappa disknum þegar ég hélt af stað til að ná stóra gula limmanum í morgun. Þessi diskur er algjör snilld, ótrúlega mellow og þægilegur. Minnir svolítið á Lisu Ekdal sings Salvardor Poe sem ég fékk einu sinni lánaðan hjá honum Tomma homma áður en hann sneri aftur til Svergie. Það er líka góður diskur. Það er svo fyndin tilfinning sem fylgir því að hafa tónlist í eyrunum þegar maður gerir sína hversdagslegu hluti eins og að taka strætó. Það er eins og heimurinn hægi á sér og allt í einu tekur maður eftir því hvað trén eru orðin græn eða hvað loftið er ferskt. Ég þarf ekki annað en að loka augunum og allt í einu er ég stödd í lestinni á leiðinni til Reading eða ég er tölta um Jesúíta garðinn í Salamanca. Ótrúlegt hvaða áhrif tónlist getur haft á mann. Svo er einhver bókmenntahátíð í gangi og þess vegna voru bækur í strætó í morgun. Þetta finnst mér frábær hugmynd og eiginlega ætti þetta alltaf að vera svona.

Ef þið eigið leið framhjá súlustaðnum í bökkunum vil ég benda ykkur á horfa upp í eldhúsgluggan hjá okkur. Þar fékk ég útrás fyrir mína innbyrgðu gremju í gær svo ekki sé minnst á mína listrænu hæfileika. Ég bjó til skilti sem á stendur með stórum svörtum breiðum stöfum: Karlmenn eru svín!. Ég teiknaði meira að segja litla gríslinga á það. Með þessu vil ég sýna stuðning minn við allar þær konur sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum svínum. Hombres son Cerdos!!

Að lokum langar mig að segja ykkur litla sögu um stelpu sem ætlaði að gera sér glaðan dag. Hún eyddi löngum tíma í að gera sig sæta. Blés á sér hárið. Málaði sig. Fór í flott föt. Aldrei að vita nema hún hitti draumaprinsinn. Hún hitti vinkonurnar. Drakk nokkra bjóra. Varð full. Þær fóru í bæinn. Drukku meira. Urðu meira fullar. Hún hitti vin sinn sem hún hafði ekki hitt lengi. Þá var hún orðin of drukkin og vinur hennar bauð henni að gista hjá sér. Þau fóru heim til hans. Hún lagðist á rúmið hans og steinsofnaði í öllum fötunum. Hún rankar við sér við það að vinur hennar liggur ofan á henni. Hann er búinn að draga nærbuxurnar hennar niður að hnjám. Hún finnur fyrir honum inni í sér. Hann hamast á henni og hún er of drukkin til að veita viðnám. Hann lýkur sér af og ringluð lognast hún út af. Skömmu seinna ryðst vinkona hennar inn í herbergið og dregur hana út. Vinkonan var þá búin að vera að berjast við annan mann sem ætlaði að koma sínu fram. Tók um hendurnar á henni og reyndi að toga hana úr fötunum. Vinkonan hafði verið með meiri rænu og náði að slíta sig lausa. Stelpan fer og helvítið kyssir hana bless.

Var þetta nauðgun? Ekki sagði stelpan það. Í símatali við vinkonu sína sagði hún þetta ekki hafa verið nauðgun því hún barðist ekki á móti. Hún gæti sjálfri sér um kennt að hafa orðið svona drukkin. Karlmenn! Þið hafið EKKI rétt á að klæða rænulausa konu úr nærfötunum! Þið hafið EKKI rétt á að hlunkast ofan á hana og koma ykkar fram þótt hún liggi við hliðina á ykkur! Aumingjar og hálvitar!!! Hún fór ekki heim með einhverjum manni sem hún hafði aldrei séð áður. Þetta var vinur hennar. VINUR



Auður Ösp kl.11:49 þann föstudagur, apríl 25, 2003


#





Jæja, þá er komin síðasi vetrardagur og er ekkert nema gott um það að segja. Sambýlingurinn keypti allt sem hún mátti í tollinum og í kvöld er planið að kveðja veturinn með pompi og prakt á súlutaðnum í bökkunum. Ég var að lesa síðuna hjá Boga "frænda" áðan og það er ekki laust við að ég sé græn af öfund yfir ferðum þeirra vitleysinga út í hinum stóra heimi. Það eru líka komnar myndir sem sína betur en allt hversu miklir vitleysingar eru þarna á ferð en það er mín skoðun að þau tvö hefðu ekki getað fundið betri ferðafélaga en hvort annað. Þau hafa lag á að fá fólk út í alls kyns vitleysu með þeim og er aldrei að vita hvað gerist næst. Ég reyni að hugga mig með því að segja sjálfri mér að minn tími muni koma og það mun hann gera, vona ég ;O) En kvöldið í kvöld lofar góðu, er búin að fá loforð fyrir því að snú snú bandið sem ég keypti um daginn verði notað og hvernig getur það nú verið leiðinlegt.......



Auður Ösp kl.13:46 þann miðvikudagur, apríl 23, 2003


#





Ohhh..... ég þarf alltaf að skrifa svo mikið þegar ég loksins kemst í tölvu. Þetta er síðasta færslan í dag, ég lofa.

Nokkrar fyndnar síður sem ég fann þegar ég átti að vera að vinna í dag..... Fyrst er það könnun sem var gerð í New York um skoðanir einhleypra þar í borg. Könnunin er mjög áhugaverð og síðan er skemmtileg þótt þetta sé nottla soldill local humor.
Næst er það furðulegur maður sem hefur mikinn áhuga á mjólk og mjólkurvörum. Mjög furðulegur
Hér er að finna skemmtilegar ástralskar fréttir meðal annars af drukknum fílum og konum sem fæða börn uppi í tré. Tékkið á the other side eða eitthvað svoleis
Síðast en ekki síst er hér maður sem er mjög ósáttur við konuna sína.... algjör snilld



Auður Ösp kl.18:32 þann þriðjudagur, apríl 22, 2003


#





Jæja, þá er sambýlingurinn snúinn aftur á klakann og undirrituð verður að fara að klæðast siðsamlegum fötum á ný í íbúðinni. Samkvæmt mínum upplýsingum, sem voru ekki mjög áreiðanlegar, átti vél sambýlingsins að lenda snemma í gærmorgun. En þegar ég vaknaði bólaði ekkert á henni sem mér fannst skrýtið því ég var nokkuð viss í minni sök um að hún hafi ætlað að vera í stóra eplinu í tíu daga. Í morgun þegar ég vaknaði hafði ég enn ekkert frétt og fannst mér þetta allt hið furðulegasta mál Ég reyndi að hringja í gemsann hjá henni og fékk engin svör og fór á endanum á netið til að athuga hvort von væri á vélinni í dag. Á heimasíðu Icelandair sá ég það að ekki var von á neinni flugvél frá New York í dag né á næstu dögum. Þetta fannst mér heldur gruggugt enda hef ég reynslu af því að stelpur sem heita Þóra komi ekki heim frá JFK flugvellinum á tilætluðum tíma. Þannig að ég ákvað að hringja í Keflavík og lenti þar á heldur leiðinlegri konu sem tjáði mér það að það hefði komið vél í gær en sambýlingurinn hefði ekki verið um borð og það kæmi önnur vél á fimmtudag og ekki væri von á henni heldur þá. Þá fór ég nú að klóra mér í hausnum og hringdi í bestu vinkonu hennar sem skildi ekki upp né niður í þessu heldur og ákvað að hringja í foreldra sambýlingsins. Þar fannst hún, steinsofandi, þrátt fyrir að konan í Keflavík þvertæki fyrir það að hún hefði verið í vélinni. Mér var heldur betur létt að hún væri komin til föðurhúsa heil á höldnu og bölvaði kerlu í hljóði fyrir að hafa platað mig.

Það er alveg með ólíkindum hvað starfsfólk Icelandair er leiðinlegt. Það skiptir ekki hvort það er beyglan sem ég lenti á áðan, gellurnar á söluskrifstofunum eða flugliðarnir eins og þetta er nú kallað núna, þau eru upp til hópa ótrúlega leiðinleg! Flugliðarnir í vélinni á leiðinni heim frá London núna í mars, mjög ljóshærð kona og mjög gay gæi, voru til dæmis of upptekin í að klípa hvort annað og kitla til þess að sinna þeim örfáu hræðum sem í vélinni voru. Ohhhh.... ég fæ alveg hroll. Svo þegar maður var í skyndibitabuisnessnum í kringlunni fyrir spánarferðina komu þær alltaf í hádeginu trítlandi í stuttu pilsunum og háu hælunum og það fundust varla leiðinlegri kúnnar. Það er eins og þetta fólk haldi af því að þau eru í bláum dröktum með gylltum hnöppum að það sé eitthvað betra en meðal jóninn og eru ekki alveg að átta sig á því að það þykir ekki jafnfínt að vera flugfreyja og áður. Þá voru það bara þeir ríku sem gátu ferðast en nú getur hvaða illi sem er keypt sér Iceland-Express og málað bæinn rauðann í útlöndum. Ef að ég með mína fjármálaóreiðu get það geta það allir. Og við, meðaljóninn og gunnan, þurfum kannski að borga fyrir okkar utanlandsferðir en við fáum líka að sitja í fluginu. Ohhh..... einokunar og snobbþjóðfélag sem við búum í. Þetta fer alveg með mig



Auður Ösp kl.16:34 þann


#





Sko, eins og sjá má þá tókst mínum tækniófróða heila að leysa úr vandamálinu með kommentin. Múhahahaha!!!!



Auður Ösp kl.14:46 þann


#





Ég er ekki alveg að skilja þetta mál með af hverju ég get ekki sett upp kommentakerfi á síðuna mína. Þegar ég setti inn gestabókina fyrst þá kom merkið fyrir gestabókina fyrir neðan hverja færslu eins og komment. Svo set ég þetta núna inn á sama stað og ekkert gerist. Hvað er málið? Það eru þrjú hugsanleg vandamál sem minn tæknófróði haus lætur sér detta í hug. Í fyrsta lagi gæti verið að template-ið sem ég er að nota bjóði bara ekki upp á þetta en einhvern vegin held ég að það sé ekki málið. Það gæti samt alveg verið, ég kann ekkert í svona forritunar html hvað sem það heitir. Í annan stað þá gæti líka verið að það sé vitleysa einhvers staðar í linknum sem ég paste-aði inn í template-ið en þar sem ég copy-paste-aði bara þá á ekki að vera nein vitleysa í því. Nú í þriðja og síðasta lagi gæti ég líka bara verið vitlaus og ekki munað rétt hvað ég gerði síðast og þetta sé allt mínum tækniófróða hausi að kenna. Sú kenning finnst mér líklegust. Þannig að núna bið ég ykkur mér tæknilegri vini að hjálpa. Hvað er ég að gera vitlaust? Svör óskast í e-maili audismaudi@hotmail.com eða í gestabókina. Þúsund þakkir



Auður Ösp kl.13:01 þann


#





Heyriði.... eitt að lokum: GLEÐILEGA PÁSKA! Skiptir ekki máli þótt þið séuð eins og ég og finnist svona trúarhátíðir frekar mikil hræsni. Ef þið getið ekki fagnað trúarboðskapnum sem tengist þessum dögum lítið þá bara á þetta sem einhvers konar vorhátíð þar sem þið fáið góðan mat og fullt af súkkulaði og það sem er best af öllu, tíma með þeim sem ykkur þykir vænt um.



Auður Ösp kl.17:39 þann laugardagur, apríl 19, 2003


#





Ég verð að segja að ég er töluvert ósátt að ég skuli vera Ross! Mér finnst ég hefði allavega átt að fá að vera ein af stelpunum. Ég er ekki sátt við að vera the divorce force og svo finnst mér hann ekki skemmtilegasta persónan í Friends. Ohhhhh......



Auður Ösp kl.15:44 þann


#









I'm Ross Gellar from Friends!

Take the Friends Quiz here.

created by stomps.






Auður Ösp kl.15:39 þann


#





Óheppni, misskilningur, minnisleysi og ruglumbull eru fjögur orð sem lýsa best mínu lífi. Ég var til dæmis óheppin þegar ég datt í tröppunum heima hjá Kjartani einu sinni, braut tíu sentimetra háa botninn af skónum mínum og skar mig á flöskunni sem ég var með í hendinni. Ég skakklappaðist um götur bæjarins á einum skó og með sjö plástra sem ég þurfti svo að skipta út á lögreglustöðinni og þeir ætluðu að kalla á sjúkrabíl. Þess gerðist þó ekki þörf. Ég var líka óheppin þegar að kerlingarálkan á Broadway á killerhælunum ákvað í ölvun sinni að sinni að höggva stykki úr tánni á mér með hælunum. Ég hef sjaldan skammast mín jafnmikið eins og þegar að einn dyravörðurinn skutlaði mér á slysó og læknar og annað hjúkrunarfólk hlógu sig máttlaus af óförum mínum og támeiðslum.

Það var mikill misskilningur á ferðinni úti í Englandi þegar ég sat í herberginu mínu í Leisure og var í óða önn að pakka niður fyrir langþráða Mallorcaferð þegar ég uppgötvaði að flugið mitt hafði farið deginum áður. Það var líka mikið ruglumbull í kringum þá ferð en sú saga er of löng til þess að útskýra hana hér. Önnur fræg misskilningssaga frá Englandi er rifrildi okkar Ástu um viðlög og aðallög en ég ætla heldur ekki út í þá sálma hér.

Minnisleysi hefur löngum hrjáð mig og af þeim sökum þarf ég til dæmis að hafa lyklana mína í bandi um hálsinn til þess að týna þeim ekki og ég þarf alltaf að setja þá á sama staðinn heima svo ég gleymi þeim ekki á útleiðinni. Svo hefur það komið fyrir að ég man ekki hvort ég var búin að tala við fólk og segi þeim sömu hlutina mörgum sinnum eða segi þeim þá alls ekki sem aftur veldur miklum misskilningi. Nýjasta dæmið um það er að ég fékk það "einfalda" verkefni þegar að deildarstjórinn minn fór til útlanda að hafa samband við einn starfsmann og biðja hann um að vinna í dag. Svo mundi ég alls ekkert hvort ég hafði talað við hann og þorði ekki að hringja í hann ef að ég skyldi hafa talað við hann. Á endanum hitti Óskar manninn í sundi og þá virtist hann ekki heldur vera viss um þetta mál. Eins og ég segi minnisleysi mitt veldur misskilningi.

Ruglumbull er mikilvægasta orðið þegar líf mitt er annars vegar vegna þess að mjög oft valda hin þrjú orðin miklu rugli og bulli. En svo þarf ekki endilega að vera. Þegar að viðurnefni mitt "lipstick lady" varð til þá var það bara rugl. Ég ákvað að skrifa skilaboð til starfsmanns ákveðis öldurhúss hér í bæ með rauðum varalit á gluggann á fyrrnefndri krá. Ég er ekki viss um að það hafi skapað mér miklar vinsældir. Ég held líka að allir aðilar sem komu að leiðinlegagaursmálinu og sérstaklega leiðinlegi gaurinn sjálfur hafi verið sammála um bullið þar. Ónefnd vinkona hafði dregið einhvern gaur með sér heim af djamminu en hafði líklega gleymt því að við stelpurnar vorum með lyklana hennar og ætluðum að gista heima hjá henni um nóttina. Án þess að taka eftir vegsummerkjum (fötum og öðru) óðum við allar þrjár með tölu inn í svefnherbergið við lítin fögnuð viðstaddra. Okkur fannst það hin mesta hneisa að þessi gaur skildi hafa ókurteisislega beðið okkur um að yfirgefa herbergið og ákváðum að þetta væri leiðinlegasti gaur sem við hefðum fyrirhitt á ævinni. Ása samdi meira að segja lag og söng það og sá um allt undirspil (á gítar og blokkflautu) þarna um nóttina fyrir utan herbergishurðina. Textinn var eitthvað á þessa leið: "Leiðinlegi gaur, leiðinlegi gaur, þú ert ekki velkominn hér, drullaðu þér heim....jejeje" Eins og þetta hefði ekki verið nóg til þess að fæla manni í burtu þá tók ég upp á því þegar aðrir voru farnir að sofa að merkja hvern einasta hlut í íbúðinni með litlum hvítum bréfmiðum. Meðal þess sem ég skrifaði á þessa miða var: "spegill", "símastóll", "rósinn sem ég keypti fyrir peningana hennar Ásu og lamdi svo Hlíf í hausinn með", "skór leiðinlega gaursins", "sokkar leiðinlega gaursins", "hér hvílir Þóra í fötunum hans Helga" og svo voru ótal fleiri miðar sem ég man ekki hvað stóð á. Leiðinlegi gaurinn var fljótur að láta sig hverfa morguninn eftir. Leiðinlegi gaur, ef þú lest þetta, þá vil ég enn og aftur biðjast afsökunar á þessu bulli



Auður Ösp kl.11:52 þann


#





Ég er alveg djöfullega lævís..... Lína GÓB þurfti að komast í mat og ég var fljót að þykjast góðmennskan uppmáluð og bauðst af einskærri góðmensku að leysa hana af. Þannig fékk ég smá tíma til þess að skrifa nokkur orð á þessa forlátu síðu en verst er að ég hef eiginlega ekkert að segja. Ég fór í "matvörubúðina" áðan og enn og aftur voru starfsmenn hennar að spyrja mig um fyrirhugað partý og ég sagði þeim að það væri í kvöld og þeim væri ekki boðið. Ég vona að þeir hafi fattað að ég væri nú bara að spauga. Annars hegða ég mér alltaf eins og hálviti í kringum þessa menn þannig að kannski halda þeir að mér hafi bara verið alvara og að ég sé algjör herfa. Þýðir ekki að tala um það, þá er ég bara herfa.

Um síðustu helgi sviku strákarnir hérna í "kexsmiðjunni" okkur stelpurnar og héldu strákadjamm sem okkur var auðvitað ekki boðið á. Við stelpurnar vorum ekki sáttar (ja eða aðallega ég) og ákváðum að snúa vörn í sókn og halda okkar eigið stelpukvöld sem átti að vera í kvöld. Sú hugmynd fór nú ekki betur en svo að það kemst bara engin nema Hulda Beib þannig að þetta stelpukvöld er alveg runnið út í sandinn. Ég veit ekki hvað við gerum í þessu en það eitt veit ég að við Hulda ÆTLUM að gera eitthvað skemmtilegt. Það er spurning hvort að við bjóðum ekki bara strákunum í "matvörubúðinni" í smá geim bæði til þess að þeir hætti að röfla og til að svekkja okkar stráka. Þannig verða allir glaðir..... múhahaha



Auður Ösp kl.13:50 þann miðvikudagur, apríl 16, 2003


#





Á laugardaginn komu Ása og Edda vinkona hennar í heimsókn og við horfðum á 40 days and 40 nights. Mér finnst alltaf gaman að horfa á sæta stráka og Josh Harnett er alveg örugglega sætur en mér fannst þessi mynd alveg afspyrnuslöpp. Sætleiki Josh náði ekki að halda henni uppi og það sem mér fannst gera útslagið var blómaatriðið sem átti að vera rosalega "spes" og "sætt" en var eiginlega bara hræðilegt. Ég fékk sömu klígjutilfinningu þá og þegar Trista fór að gráta yfir ljóðinu sem Ryan samdi handa henni síðast í Bachelorette..... OJ!!!

Allavega.... Ása var voða bitur út í karlpeninginn og upphófst mikil umræða af hverju þessir gaurar eru eins og þeir eru og af hverju kynin skilja ekki hvort annað. Að sjálfsögðu komumst við ekki að neinni niðurstöðu frekar en aðrir sem fetað hafa þessa slóð og enduðum á að tala bara í hringi. En ég fór að hugsa eftir að stelpurnar voru farnar (það veit aldrei á gott) og fór allt í einu að spá hvað væri hægt að gera fyrir alla þessa einhleypinga þarna úti sem gráta í koddann á hverju kvöldi af einsemd. Nú er alltaf talað um að kynþörfin sé ein af grunnþörfum mannsins án þess þó að ég sé einhver mannfræðingur eða félagsfræðingur en þetta hefur maður heyrt. Nú önnur "þörf" sem maðurinn hefur er þörfin fyrir vatn, fæði og húsaskjól og þykja þeir mjög illa staddir sem vantar eitt af þessum atriðum. Íslenska ríkið bíður upp á lausn fyrir þá ólánsömu aðila sem ekki eiga í nein hús að venda eða eru svangir og eitt afbrigði hennar eru atvinnuleysisskrifstofurnar þar sem fólk fær bætur á meðan það fær hjálp við að finna sér vinnu. Væri ekki bara alveg gráupplagt að koma upp svona makaleysisskrifstofum? Þar ynni sérþjálfað starfsfólk sem hjálpaði einhleypingunum að finna sér maka og á meðan á leitinni stæði sæi skrifstofan skjólstæðingum sínum fyrir hjálpartækjum og lesefni. Svo væri hægt að hafa alls kyns svona námskeið og uppákomur til að betrumbæta skjólstæðingana og gera þá þannig meira spennandi fyrir hitt kynið. Þetta gætu verið svona "Settu niður setuna, þrjú einföld þrep til betra lífs" og "Klósettbursti og Kartöflur, matreiðsla og heimilsstörf fyrir byrjendur". Svo gætu verið svona vikuleg shag-tag kvöld þar sem fólk drægi bara miða og ætti svo að finna aðila af hinu kyninu með sama númer Ég held að þetta væri ekki svo vitlaus hugmynd. Ég er viss um það að stjórnmálaflokkarnir gætu nælt sér í nokkur atkvæði ef að þær tækju þetta mál til umfjöllunar í kosningabaráttunni.



Auður Ösp kl.12:55 þann mánudagur, apríl 14, 2003


#





Það er alltaf gott veður þegar ég er að vinna. Í stað þess að vera úti að spóka mig í góða veðrinu sit ég og horfi á BLA búa til heilt fótboltalið af börnum í smokkaleiknum sem Hlíf sendi mér. Hann er alveg merkilega lélegur í þessum leik, eins og hann er einfaldur. Meira að segja mér tókst að fá fullt hús stiga í fyrstu tilraun. Þarna sjáiði, ég er góð í einhverju.

Í gær rann á mig æði og ég bara tók til í allri íbúðinni. Þetta var ekki bara svona yfirborðstiltekt eins og venjulega heldur komu tuskur, jif eða cif eða hvað það heitir og glerúði að málinu. Ég er ekkert smá stolt af þessum frábæra árangri á tiltektarsviðinu að ég held að ég sleppi bara alveg fram af mér beislinu í kvöld og skúri alla hundrað fermetrana. Ég þarf að láta líta á mig því ofan á alla tiltektina heima þá þurfti ég alveg endilega að taka allt til í vinnunni líka í morgun og ég bara veit ekki hvar þetta endar. Svo skrifaði ég bréf og ég lék gestgjafa í smá stund þegar að ég skaut skjólhúsi yfir Eyju, Lindu og 14 ára frænku þeirra áður en ég keyrði þær á Scooter tónleika. Með þessu áframhaldi verð ég eins og mamma um árið þegar hún ákvað að prófa Gingo Biloba og straujaði allt lauslegt heima fram á rauðar nætur og vaknaði svo klukkan 6 til að taka eldshússkápana í gegn. Gaman gaman gaman.......



Auður Ösp kl.16:30 þann laugardagur, apríl 12, 2003


#





Eftirfarandi auglýsing var hengd upp í kaffistofunni í vinnunni um daginn. Hún fékk mjög góð viðbrögð vinnufélaga minna en engu að síður var pósthólfið sem auglýst er í henni tómt og olli það nokkrum vonbrigðum. Hmmmm..... hver ætli hafi borið ábyrgð á þessari auglýsingu? :

HJÁLP ÓSKAST !

Við hérna hjá "kexsmiðjunni" vinnum að því hörðum höndum að koma út einu karlkyns kassadömunni okkar, honum Óskari. Óskar er óheppinn í ástum og kynnist bara einhverjum beyglum. Þess vegna þarf hann þína hjálp.

Ef þú ert ljóshærð skutla með stór brjóst og hefur áhuga á að kynnast tölvunerði með meiru þá ert þú rétta stúlkan fyrir hann Óskar okkar.

Ef þú hefur áhuga sendu þá meil með mynd af þér og helstu upplýsingar (skálastærð o.s.frv) á superstud1981@hotmail.com

Öllum umsóknum verður svarað


Ég skil ekki af hverju hann fékk ekki nein svör. Það voru meira að segja nafnspjöld sem fólk gat tekið sem var búið að skrifa e-mailið hans á og það voru myndir og allt. Gjörsamlega óskiljanlegt. En þessi frábæra auglýsing er enn í fullu gildi svo endilega sendið honum meil.....



Auður Ösp kl.10:49 þann


#





Í gærkvöldi fórum við krakkarnir í vinnunni út að borða og svo í keilu á eftir. Ég var ótrúlega glöð þegar þetta var ákveðið því ég sá fram á enn eitt leiðindarkvöldið með rósóttu sófunum og imbanum. Ég var ekki alveg jafnglöð í lok kvölds þegar við vorum búin að spila einn leik í keilu og ég var nærri hundrað stigum undir hæsta manni. Ég fékk hvorki meira né minna en 39 stig í þessum leik og held ég að það sé bara nýtt fyrirtækismet í lélegheitum. Næst þegar að það á eitthvað að fara að keppa í einhverju ætla ég að leggja til að það verði spilaður kani. Ég þykist nokkuð viss um að ég myndi rústa þeirri keppni.

Annars er það að frétta að sambýlingurinn ætlar að stinga mig af til New York á morgun. Bévítans lukkugrís. Mér er hálfilla við að vera ein heima í heila tíu daga, ég held ég eigi eftir að vera mjög einmana. Annars ætla ég nú að reyna að gera gott úr þessu, er búin að bjóða systrum mínum í heimsókn og svona. Hver veit nema það verði bara boðað til aðalfundar naktafélagsins eða eitthvað. Annars þá er ég komin í aðra nefnd í vinnunni (hvernig fara þau að því að plata mig svona), djammnefnd, og var hún stofnuð til þess að skipuleggja skemmtun með nágrönnum okkar í matvörubúðinni. Upphaflega kom þessi hugmynd til vegna þess að ónefndum sölumanni hjá okkur leist svo vel á ónefndan starfsmann matvörubúðarinnar en nú er sá ónefndi starfsmaður hættur en við verðum að standa við partýáætlanir okkar. En það eru fínir krakkar að vinna þarna hinu megin þannig að þótt fjarvera ónefnds starfsmanns eyðileggi hösslplön ónefnds sölumanns ætti þetta að verða gott geim. Jei! Eitthvað til að hlakka til......



Auður Ösp kl.14:30 þann fimmtudagur, apríl 10, 2003


#





Elsku Blogger!

Ég bið ekki um mikið, það eina sem ég vil er að þú hegðir þér vel og gerir það sem ég bið þig um að gera. Ég bað þig um að setja kommenta kerfi inn á síðuna mína en þú ákvaðst að hunsa þá beiðni mína. Síðast þegar ég bað þig um þetta þá ákvaðstu að breyta síðunni í eitthvað grænt furðuverk og texinn varð í laginu eins og trekt. Ég hef reynt að gera mitt besta og reynt að skrifa eins oft og ég get. Hvað get ég gert meira? Af hverju geturðu ekki bara gert þennan eina hlut fyrir mig? Það er ekki eins og ég sé að biðja um myndir eða nýtt logo fyrir gestabókina. Elsku Blogger, hjálpumst að og verum vinir

Þín að eilífu
Auður



Auður Ösp kl.13:05 þann


#





Það sem fer mest í taugarnar á mér í augnablikinu: Óþolinmóðir og leiðinlegir kúnnar sem halda að heimurinn snúist um rassgatið á þeim
Síðasta mynd sem ég sá: Crazy-Beautiful, ég er að segja ykkur að Jay Hernandez er kominn í grísku guðatöluna. Úff hvað hann er sætur
Ég er að hlusta á: Asian Dub Foundation, keypti þennan disk fyrir 3 árum síðan og hlustaði í fyrsta skipti á hann um daginn. Er ekki búin að mynda mér skoðun á honum en get sagt að hann er góður til dæmis þegar að maður er að taka til
Ég er að lesa:Matilda á spænsku. Ég er búin að vera að reyna að lesa þessa bók í ca. ár en hefur ekki tekist að klára hana. Ég hugsaði með mér að úr því að ég er búin að klúðra spænskunáminu ætti ég allavega að sjá sóma minn í að klára þessa bók. Svo er hún líka svo skemmtileg'
Uppáhalds sjónvarpsþátturinn minn í augnablikinu er: Is harry on the boat? Æðislega ömurlegur þáttur
Ég borðaði í hádeginu:Skinkupasta frá Jóa Fel og það var bara assgoti gott. Ég er reyndar komin á þá skoðun að allt sé betra en júmbó samlokur
Ég skil ekki: Fólk sem veit hvað það ætlar að gera með líf sitt og því síður þá sem eru búnir að finna sér einhvern til að deila því með
Mig dreymir um: Frið á jörð. Annars dreymdi mig þvílíka hringavitleysu um portúgalann í nótt sem endaði með að ég drap hann.... hehehe (hey það var óvart... hehehe)
Á msn er ég að tala við: Tvo furðulega ítali sem skilja eiginlega ekki ensku en elska Ísland... mjög skemmtilegir (it was snowed yesterday!) Minna soldið á Hakim boring og Pedro sem var ekki in a harry
Núna ætla ég að: Hætta þessari vitleysu og fara að gera eitthvað af viti





Auður Ösp kl.18:29 þann þriðjudagur, apríl 08, 2003


#





Hahaha!!!! Í gær vannst mikilvægur sigur í baráttu minni við þvottavélina. Ég þvoði, tæmdi og þeytti eins ég ætti lífið að leysa og við fyrstu athugun þá virðist vera í lagi með hverja einustu flík. Ég sá engar litabreytingar, það eru engin brunagöt né göt af öðrum toga og það slysaðist meira að segja hvítur sokkur með sem var enn hvítur að þvotti loknum. Ég er að ná stjórn á baðherberginu á ný og ég sé algjöra uppgjöf af garmsins hálfu í nákominni framtíð..... múhahaha. Eitt-núll fyrir mér! (Reyndar er stigatalan meira svona tuttugu-eitt fyrir þvottavélinni en hey....)



Auður Ösp kl.14:36 þann


#





" Andrex with Aloe Vera and vitamin E has soft ripples that are enriched with extras of soothing Aloe Vera and vitamin E to give you and your family an extra level of care" Sambýlingurinn fór að versla og keypti meðal annars Andrex salernisrúllur, þið vitið þessar með sætu hvolpinum á pakkanum. Ég fékk það verkefni að taka upp úr pokunum og rak augun í þessa setningu hér að ofan einmitt á hvolpaklósettrúllunum. Ég veit það ekki.... kannski er ég að upplýsa ykkur um fáfræði mína eða vanskilning minn á einhverjum alheimssannleik en ég skil ekki ekki þennan Aloe Vera klósettpappír. Mér fannst þetta bara fyndin setning og langaði að deila henni með ykkur....



Auður Ösp kl.12:37 þann mánudagur, apríl 07, 2003


#





Staðir sem Sauðurinn hefur búið á:
1. Rauðarárstígurinn. Bjuggum fjögur saman í 56 fm í tíu ár eða þar til systur mínar fæddust og við urðum sex. Þá var orðið heldur þröngt á þingi og hele familien flutti
2. Efstihjallinn. Í Efstahjallanum bjuggum við í 5-6 ár, man ekki alveg, og var ég aldrei neitt sérstaklega sátt við þá íbúð. Fékk samt að búa í kjallaraherberginu ein í fáeina mánuði áður en við fluttum og fannst ég mér frekar stór og fullorðin þar niðri. Var með minn eigin ísskáp og sturtu...
3. Gullsmárinn. Lítið um hann að segja nema að þangað var farið í berjamó þegar ég var ung hnáta. Herbergið mitt var 8 og 1/2 fm og alltaf fullt af drasli.
4. Lagðist í víking til Noregs þegar ég var 18 ára. Bjó í Sofiemyr og ekki einu sinni Norðmenn vita hvar það er. Átti að vera þar í heilt ár en entist í tæpa tvo mánuði
3.Kom heim í Gullsmárann aftur, var þar í tvo mánuði og enn var allt í drasli.
5. Leisure Block, Littlecote House, Berkshire UK. Þar var ég í sex mánuði og deildi teppalögðu baðherberginu með 8 öðrum. Þar bjuggu með mér fólk frá Wales, Spáni, Suður-Afríku, Grikklandi/Búlgaríu, Frakklandi, Englandi, Íslandi og einn sem var ekki alveg viss um hvaðan hann var. Tiltekt átti heldur ekki upp á pallborðið þar og getur Ásta vottað um það. Það var samt alltaf fjör í Leisure og nóg um áfengar veigar.
3. Gullsmárinn aftur og enn var allt á hvolfi þar til móðirin fékk nóg og sparkaði ruslahaugnum á dyr. Í miklum flýti var fundinn nýr samastaður.......
6. Ónefnd staðsetning í Hafnarfirði. Þar deildi ég tveggja herbergja íbúð í sex mánuði með ásatrúarhomma frá Írak. Átti sjaldan pening fyrir mat og lét það fara ósegjanlega mikið í taugarnar á mér þegar að áðurnefndur Íraki stal öllum flúðasveppunum mínum. Þegar að eiginmaður ásatrúarhommans vildi flytja inn til okkur og sofa með honum í stofunni okkar fékk ég nóg og Gullsmárinn elskulegi tók við mér á ný
7.Campoamor 32, Salamanca, Espana. Skömmu eftir 21. afmælisdag minn hélt ég á ný á vit ævintýranna. Þar bjó ég í furðulegri íbúð sem er of furðuleg til að lýsa í stuttu máli. Kannski skal ég lýsa íbúðinn einn daginn ef ég er í stuði en ég læt það nægja að minnast á fuglshausinn sem við fundum í sófanum, grænu teppalögðu veggina í herberginu hennar Hlífar og vatnslausu dagarnir þar sem við þurftu að fara á klósettið á Burger King. Þar bjó ég einmitt líka með Gebbu Spears og Siggu Skokk. Eftir þrjá yndislega ævintýramánuði var dvöl minni í Salamanca lokið og leiðin lá suður á bóginn.
8.Edificio El Jardín held ég að byggingin okkar í Torremolinos hafi heitið. Þar ætluðum við að búa fjórar í tveimur herbergjum og tveimur rúmum en það æxlaðist þannig að það voru töluvert fleiri sem þarna bjuggu. Þegar að mest var held ég að það hafi búið sjö manns í kakkalakkabælinu. Nokkrir voru titlaðir íbúar og aðrir voru gestir. Svo voru nokkrir sem enginn vissi hvernig enduðu í íbúðinni okkar. Eftirfarandi aðilar áttur ljúfar nætur í kakkalakkabælinu: Gebba, Sigga, Hlíbbið, Hlífar systir, Ása, Ásta og Guddi úr Reykjavík, Tríóið úr Grindó Bogi, Bjarni, og Rikki ásamt einum litlum Grindvíking sem kenndur var við tannburstadansinn, Dara, Eamon og Neil frá Írlandi, Dópistabretarnir Nick og Peter, Al, Dave, John og Claire frá Englandi, Jerone frá Hollandi, Kólumbíska barnið Diego og ég man ekki eftir fleirum (stelpur hjálp!) Svo má auðvitað ekki gleyma kisunni okkar henni Cheno og hundrað þúsund kakkalökkum. Aðrir daglegir gestir voru Erla, Edda, Þóra, Sunny, Ausi og margir margir fleiri. Ég bjó í þrjá mánuði í marokkóslömminu innan um kakkalakkana
3.Það er ótrúlegt hvað Gullsmárinn er elskulegur því þar fékk ég að búa í þrjá mánuði eftir að ég kom heim frá Spáni
9.Vesturbergið í Gettói Reykjavíkur. Ég á bæði góðar og slæmar minningar frá þessum stað, aðallega slæmar samt. Þarna bjó ég með Sambýlingnum margumtalaða ásamt indverskum strætóbílstjóra og filipiskri einstæðri móður. Þetta var áhugaverð sambúð svo ekki sé meira sagt. Indverski strætóbílstjórinn var með eindæmum svartsýnn og sat allan daginn með straight vodka og fylgdist með framvindu mála í Írak á CNN. Þess á milli stálu hann og fulli leigusalinn uppi á lofti áfengi frá okkur Sambýlingnum og það er ekki vel liðið á þessum bæ. Við vorum fljótar að forða okkur þaðan.......
3. Gullsmárinn til bjargar á ný
10. Núna búum við í yndislegu og ástkæru íbúðinni okkar í bökkunum bara við sambýlingurinn. Það er kannski stundum soldið drasl hjá okkur og rósóttu sófarnir eru svolítið ljótir en ég elska þá samt. Er bráðum búin að slá sex mánaða metið og vonandi verð ég bara þarna næsta árið eða svo.



Auður Ösp kl.16:29 þann fimmtudagur, apríl 03, 2003


#





Þá er Sauðurinn mættur á ný og sem endranær hef ég ekki mikið að segja. Ég slysaðist inn á bloggsíðu hjá breskum háskólastúdent áðan og með því að klikka á link eftir link voru allt í einu liðnir þrír tímar og ég búin að ferðast frá miðborg London til Las Vegas með stoppum í Írak, Noregi, og Japan svo fátt eitt sé nefnt. Þetta internet er ótrúlegur tímaþjófur og ég er engu fróðari eftir þessa þrjá tíma. Jú, tvær kolruglaðar bandarískar stelpur sem vinna sem gengilbeinur í spilavíti í Las Vegas ákváðu að fylla lítið strákgrey sem álpaðist inn í garðinn til þeirra (ef ég skyldi þetta rétt) sér til skemmtunar. Ég hefði alls ekki getað lifað áfram án þessara upplýsinga.

Stundum stend ég sjálfa mig að því að stara á fólk í kringum mig. Blásaklausar sálir sem gerðu það eitt rangt að setjast í sama strætisvagn og ég eða versla í sömu búð. Stundum hef ég ekki áttað mig á því hvað ég er að gera fyrr en að fólkinu er augljóslega farið að líða illa yfir þessari óvæntu athygli og er farið að draga hárið óvenju oft frá andlitinu eða dusta í sífellu ímyndað ryk af fötunum. Ég er ekki beint að horfa á fólkið og yfirleitt gæti ég ekki sagt þér neitt um útlit viðkomandi manneskju. Ég er miklu frekar að spá í hvað fólkið sé að gera í lífinu, hvort það eigi börn og hvort það sé yfir höfuð hamingjusamt. Þetta er frekar tilgagnslaus leikur þar þú sérð ekkert á fólki utan á því hvort það er hamingjusamt eða ekki. Ég verð að reyna að hætta þessu áður en ég verð bara lamin eða eitthvað.




Auður Ösp kl.15:47 þann


#





Úffe elleman jónson! Ég er ekki frá því að ég hafi verið að upplifa mín fyrstu blogg fráhvörf. Ég er búin að vera lasin núna í tvo daga og hef þar af leiðandi ekki komist í tölvu til að tjá mig. Ég er reyndar ekki hissa á þessum veikindum þar sem ég tók ansi góða sullrispu í síðustu viku. Ég skrifaði örugglega sjö blaðsíður í dagbókina í veikindunum og þar að auki nokkrar blaðsíður í skáldsöguna. Ég er nefnilega með drauma um að geta látið verða af hugmynd sem ég fékk fyrir jólin '99 um að gefa vinum og vandamönnum ritverk eftir sjálfa mig í jólagjöf. Ég er ömurlegasti jólasveinn í geimi og renn alltaf út á tíma með að finna jólagjafir. En þið sem eruð vön gjöfum og kortum frá mér, örvæntið ekki því mér mun ekki takast að klára þetta fyrir næstu jól heldur. Ég er samt komin með æsispennandi hugmyndir og nokkra kafla svo hver veit hvað gerist.

Árshátíðin fór vel fram en eins og mig grunaði guggnaði ég á að vera með skemmtiatriði. Atriðin sem á undan komu voru bara svo flott að ég treysti mér ekki að koma á eftir þeim. Annars heyrði ég útundan mér tvo vinnufélaga mína segja þegar að ég mætti að ég væri nú bara skemmtiatriði út af fyrir mig. Eins og glöggir lesendur hafa kannski rekið augun í í síðustu færslu þá mætti ég með deit á árshátíðina. Ég hafði sagt stelpunum í minni deild frá manninum og þær látið söguna ganga. Að endingu var sú saga komin um allt að ég ætlaði að koma með nýja kærastann minn á árshátíðina og ekki nóg með það heldur var hann "af erlendu bergi brotinn" eins og ein stelpan orðaði það. Það vakti þess vegna mikla lukku þegar ég mætti með Jean-Babtist, upplásna manninn sem við Ása gáfum Hlíf einu sinni í jólagjöf, undir hendinni í veisluna. Hann Jean vakti mikla lukku, fékk að sitja til borðs og allt saman, og reyndi meira að segja ein samstarfskona mín að stinga undan mér. Hápunkturinn var svo þegar að hann Jean fékk vinning í happadrættinu og ég og áðurnefnd samstarfskona leiddum hann á milli okkar upp á svið. Svo var farið í bæinn þar sem ég lenti í stórskota hríð frá BLA (þú veist hver þú ert ef þú slysast einhvern tíma hérna inn) og vil ég bara segja að því máli er ekki lokið ;O)

Á sunnudaginn komumst við meðlimirnir í 3am morgunklúbbnum að merkilegri niðurstöðu. Ég veit ekki hvort það voru veigarnar frá kvöldinu áður sem hjálpuðu okkur við að sjá ljósið eða hvort æðri völd voru þarna að verki en við sum sé komumst að því að Pakistan er nafli alheimsins. Við erum öll frá pakistan, bara misjafnlega mikið. Ása er til dæmis hálfur bleikur pakistani og hálfur íri en ég er augljóslega meiri pakistani en hún út af dökku yfirbragðinu. Við hlógum stanslaust í fjóra tíma yfir þessu Pakistana máli og líka vegna misskilnings varðandi marakóskan mann og orðsins habibi. En þetta er svona húmor sem bara 3am skilur og útskýrir eiginlega af hverju það eru bara þrír meðlimir í klúbbnum.

En jæja... það er bara vinnan á morgun aftur en sem betur fer er ég í fríi um næstu helgi... húrra húrra húrra! Þetta eru líka síðustu djammsögur sem þið heyrið af minni í bráð þar sem það eru sparnaðar og lifrarbjörgunaraðgerðir í gangi. Segið mér eitt að lokum, af hverju segir fólk að indverska lagið sé úr Bend it like Beckham? Ég horfði á hana í dag og heyrði lagið ekki..... bara svona hugleiðing



Auður Ösp kl.20:28 þann þriðjudagur, apríl 01, 2003


#









.Daz Gebbz. .Ázta. .Early. .Áza. .Znóra. .Cliff. .Ziggy.


  • mars 2003
  • apríl 2003
  • maí 2003
  • júní 2003
  • júlí 2003
  • ágúst 2003
  • september 2003
  • október 2003
  • nóvember 2003
  • desember 2003
  • janúar 2004
  • febrúar 2004
  • mars 2004
  • apríl 2004
  • maí 2004
  • júlí 2004
  • október 2004
  • nóvember 2004
  • desember 2004
  • janúar 2005
  • febrúar 2005
  • maí 2005
  • ágúst 2005
  • mars 2007