Á meðan ég man.... tékkiði endilega á honum Boga "frænda" og ævintýrum hans í útlandinu. Sá maður klikkar aldrei!



Auður Ösp kl.14:02 þann laugardagur, mars 29, 2003


#





Ég þarf kók og eitthvað feitt að borða! Helst með miklu mæjó og kannski svona þrjá lítra af kóki. Það er ótrúlegt hvað veðrið er gott í dag. Ég þurfti að beita mig miklum sjálfsaga til þess að gleyma bara ekki að mæta til vinnu í dag. Eftir að hafa umgengist sambýlinginn og Reyni Reynisson og hlustað á þau tala endalaust um dásemdir snjóbretta neyðist ég til að fara að prófa svona græju. Dagurinn í dag væri alveg tilvalinn í þá iðkun, ég held að þú fáir bara ekki betra veður til þess að detta á rassinn aftur og aftur.

Í kvöld er hin margumtalaða árshátíð. Ég fæ nákvæmlega tvo tíma til þess að koma mér heim úr vinnunni, hafa mig til og koma mér upp í Grafarholt.Ég sé fram á að standa í sturtunni með blásarann í annarri á meðan ég reyni að troða mér í sokkabuxurnar og lakka á mér neglurnar með hinni. Ef ég væri gáfuð þá hefði ég kannski verið búin að vinna einhverja undirbúningsvinnu og ég hefði líka kannski sleppt því að djamma til sjö í morgun en ég hugsa aldrei út í svona hluti fyrr en það er um seinan. Svo ofan á allt fegrunarferlið sem þarf að fara fram á ljóshraða þá á ég líka eftir að blása upp deitið mitt. Ég hef reyndar litlar áhyggjur af atriðinu okkar því ég er svo seint í dagskránni að ég verð löngu dauð þegar að það kemur að mér. Svo á ég örugglega eftir að renna á rassinn (úff datt einhvers staðar í gær, man ekki hvar en það var neyðarlegt, man það!) eða missa matinn í kjöltuna á mér eins og gerðist á síðasta mannamóti í fyrirtækinu svo það verður engin þörf á því að ég verði með eitthvað uppistand. Ég sofna örugglega ofan í sjávarréttasalatið og vakna ein í Golfskálanum í Grafarholti í fyrramálið með rækju í nefinu. Þetta kvöld leggst vel í mig.

Gærkvöldið var æðiskrautlegt og alveg glimrandi gott. Auðunn og Guðjón kíktu í heimsókn í San Miguel partý og svo vorum það við sambýlingurinn, besta vinkona sambýlingsins og Reynir. Reyndar kom líka annað fólk en það var engan veginn að skilja upp né niður í okkur svo það kemur lítið við sögu í þessari frásögn. Auðunn brilleraði alveg og er hér með krýndur stjarna kvöldsins. Honum tókst að brjóta tvö glös með einstakri lagni. Fyrra glasið brotnaði þegar hann kastaði málmbjöllu ofan í glasið hennar Birnu (besta vinkona sambýlingsins) og skvetti bjór um allt. Pedro rauk inn í eldhús og bjóst ég nú við að hann væri að sækja nýtt glas til að bjarga bjórnum en kom til baka með bláan skaftpott. Skildi ekki alveg þá pælingu. Birna ákvað að hefna sín með því að setja gulan hálsbrjóstsykur í bjórinn hans Ausa en það bragðbætti bara bjórinn og rann sú hefnd alveg út í sandinn. Seinna glasið braut hann þegar að hann var að sýna okkur barþjónahæfileika sína með líters San Miguel flösku og sannaðist þá að allt sem fer upp kemur niður aftur. Í þessu tilviki kom flaskan beint niður á glas númer tvö hjá Birnu og brotnaði það í þúsund mola. Ausi þarf að horfa á Cocktail aftur. Svo datt okkur í hug að fylla veskið hennar Birnu af alls kyns gersemum og meðal þess sem hún fann þegar hún fór að gramsa var beygluð bjórdós, brjóstsykursbréf og haus af Barbí dúkku. Húmorinn var á háu plani í bökkunum í gær. Rúsínan í pylsuendanum og mín uppáhalds uppákoma í gær var þegar að dyrabjallan hringdi rétt fyrir eitt. Við höfðum talað við Friðgeir fyrr um kvöldið og héldum að hann hefði loks ákveðið að láta sjá sig. En það var annar pési sem var þar á ferð. Þessi pési hét Högni og hafði ekkert okkar séð hann áður. Ég vil nú ekki vera að dæma fólk sem ég ekki þekki en hann virkaði frekar furðulegur á mig. Hann fékk konunglegar móttökur, fékk miðpartinn af áðurnefndri barbídúkku að gjöf og það voru teknar fullt af myndum af þessum óvænta gesti. En svo hentum við honum út því við vorum á leið í bæinn. Þessi furðulegi snillingur hjólaði svo út í nóttina og gott ef hann bauð ekki Birnu far í bæinn. Mjög gott kvöld!



Auður Ösp kl.12:48 þann


#





Dagurinn í dag er alveg með eindæmum yndislegur. Ég veit ekki hvað veldur en ég veit það samt að það er fátt sem getur raskað ró minni í dag.

Pedro kom í gær og það var með eindæmum fyndið að sjá hann án Hawaí skyrtu og flip-flop sandala. Hann var voða heimilslegur og eldaði spænskan kvöldmat fyrir okkur sambýlinginn sem við skoluðum niður með spænsku víni. Mjög huggulegt. Þegar að leið á kvöldið var ákveðið að fara í drykkjuleikinn góða og varð það til þess að sambýlingurinn leið út af á vindsænginni hans Pedro. Ég er farin að hallast að því að sambýlingurinn ætti að láta það vera að spila drykkjuleiki, hún er ekki jafnmikill sjómaður og kakkalakkabælisbúar.

En aftur að síðhærða spanjólanum. Hann Pedro er nefnilega ekki allur þar sem hann er séður. Mér finnst hann reyndar soldið sniðugur af sömu ástæðu og mér fannst barþjónninn!! í Salamanca sniðugur. Hann Pedro var að vinna á El open arms í Torremolinos og kynntist þar slatta af íslenskum stelpum. Stelpur fíla hann örugglega vel þar sem hann er svona snjóbrettatöffari með sítt hár sem er daðrari dauðans og svo talar hann líka svo skemmtilega íslensku. Strákar þið ættuð að ná ykkur í einhvern skemmtilegan hreim og þá myndu stelpurnar falla fyrir ykkur í hrönnum, ég er alveg viss um það! Nema að allar stelpurnar sem voru svona mikið að fíla hann Pedro í Torre gáfu honum símanúmer og netföng ef hann skyldi nú koma til Íslands sem að hann auðvitað gerði enda á maðurinn barn og fyrrverandi konu hérna. Svo kemur hann úr útlegðinni á Akureyri og í bæinn og þá bíða hans fullt af sætum ljóskum sem verða frá sér numdar að hann skuli muna eftir þeim. Hann er t.d. búinn að vera að senda Ástu sms varðandi komu hans til borgarinnar og hann gistir hjá okkur þannig að guð má vita hversu margar stelpur hafa fengið sms frá honum. En hann tengir okkur Ástu ekki saman þannig að hann veit ekki að ég veit. Svo reynir hann við okkur sambýlinginn til skiptis þegar að hin skreppur frá og ég myndi bara segja að hann Pedro væri búinn að koma málunum nokkuð vel fyrir. Ég hef ákveðið að nefna Pedro hinu íslenska nafni Reynir Reynisson og verður hann kallaður það hér eftir. Það verður gaman að fylgjast með ævintýrum Reynis í borginni.



Auður Ösp kl.15:09 þann fimmtudagur, mars 27, 2003


#





Ég var að átta mig á svolitlu í sambandi við sjálfa mig.... Ég er þrjóskari en andskotinn! Ég hef á tilfinningunni að þetta séu ekki nýjar fréttir fyrir alla en ég hafði ekki áttað mig á þessu fyllilega. Ég er búin að sitja sveitt í allan dag við að reyna að fá gestabókina á bara einhvern annan stað á síðunni en undir hverja færslu en það gengur ekki neitt. Ég er farin að hafa áhyggjur af því að það þurfi að bera mig út nauðuga úr vinnunni í kvöld því eins og málin standa þá ÆTLA ég að skilja hvernig þetta hel***i virkar!

Ég gleymdi að minnast á það að ég sæki ákveðin síðhærðan spanjóla út á Reykjavíkurflugvöll í fyrramálið. Ég veit að við vinkonurnar kvörtuðum mikið yfir því þegar að gestagangurinn var sem mestur í kakkalakkabælinu en ég sakna þess eiginlega að vita aldrei hvaða aðskotahlut var að finna á sófanum á morgnana. Allra þjóða kvikindi sem vissu oft ekki sjálf hvað þau voru að gera á sófanum okkar (eða gólfinu) og furðuleg samskipti þeirra við kakkalakkabælisbúa. Ég hefði til dæmis viljað vera fluga á vegg þegar að Ása sagði við skoska vin hans He-Man eftir að hann hafði verið á spjalli við hana í góðan hálftíma og meira að segja boðist til að kaupa handa henni morgunmat: "Who the fuck are you?" En allavega þá ætlar "El open arms" barþjónninn einmitt að gista á sófanum hjá okkur þannig að ég fæ aftur smjörþefin af því sem áður var. Svo er ég að hugsa um að ráðast í stórfelldan innflutning á vinum og kunningjum út í heimi og hver veit nema þetta sumar hér á Fróni verði bara áhugavert. Sambýlingurinn bjó nú líka á Spáni í þrjú ár og ætti að geta hjálpað mér í þessum influtningi!



Auður Ösp kl.16:58 þann þriðjudagur, mars 25, 2003


#





Núna er ég orðin fullorðin. Í fyrsta skipti á ævinni gerði ég skattaskýrsluna mína alveg sjálf og fékk enga hjálp frá neinum. Þetta var nú ekkert mjög flókið svo sem þar sem ég var lítið að vinna á síðasta ári og á ekkert en ég er samt ótrúlega stolt. Ég skilaði henni meira að segja á netinu, svona er ég orðin tæknivædd. Ég klikkaði reyndar á einu og það var að biðja um slysatrygginguna sem er á forsíðunni. Þar sem ég þekki sjálfa mig veit ég að það hefði líklega verið gott fyrir mig að hafa svona tryggingu og nú fæ ég martraðir á nóttinni um að ég hálsbrjóti mig í baði eða ég kveiki í sjálfri mér yfir pottunum. Annað eins hefur nú gerst.

Ég fór út úr húsi á laugardagskvöldið og var fyrsti áfangastaður híbýli Hlífar. Þar sötraði ég rauðvín og aðrar skringilegar veigar sem komu mér á þá skoðun að það er ekki alveg allt hey í harðindum. Var ferðinni síðan heitið í bæinn þar sem ég varð vitni að því þegar að Gerður braut hælinn á skónum sínum enn einu sinni. Ólíkt því sem hún segir á sinni síðu þá gátum við ekki varist hlátri en ég er mjög glöð að sjá að tilraunir okkar til þess að fela hláturkastið hafi tekist. Gerður og aðrir verða þó að hafa í huga að ég hef verið viðstödd þrjú af fjórum hælakvöldum Gerðar og er ekki viss um það fjórða þannig að ég hreinlega gat ekki hamið mig. Af þessum þrem skiptum sem ég er viss um að ég hafi verið viðstödd er kvöldið í Salamanca í uppáhaldi hjá mér. Ef að fólk hefði bara séð hana á einum tíu sentimetra hæl með vodkaflösku í annari og skaðræðisveskið í hinni, skakklappast um alla Salamancaborg, þá myndi það skilja mig. Gerður mín, þú ert hetja! Annars endaði kvöldið fljótt þar sem vinnan beið mín á sunnudeginum. Við Hlíf komum þó við í Kebabhúsinu og vil ég segja að starfsfólkið þar á lof skilið fyrir að vinna ennþá vinnuna sína. Ruglið sem fylgir okkur Hlíf er nú nóg en þó er það bara dropi í hafið miðað við þann fjölda sem leggur leið sína í þessa lúgu um helgar. Mér hefur tekist að reita einhvern Tyrkja til reiði í einni komu minni þangað með því að kalla hann habibi (elskan á arabísku held ég). Tyrkir tala sem sagt ekki arabísku og eru ekki hressir með að vera ruglað saman við Araba. Mæli eindregið á móti því að gera þessi mistök. Annars finnst mér allt fólk sem vinnur í þessum skemmtanabransa með eindæmum hugrakkt og duglegt. Nema asnarnir á NASA en ég hef mínar ástæður fyrir því!

Ég vil hér með þakka fyrir fallegar kveðjur í nýju fallegu "gerði það allt sjálf" gestabókinni minni. Ykkur að segja þá á ég enga tölvu nema gömlu svarthvítu fartölvuna hans pabba sem er með Windows 3.11!!!. Þess vegna verða öll netsamskipti mín við umheiminn að fara fram í vinnunni og get ég bara skrifað um það bil tvisvar í viku. Ég sé það að ég verð að fara að fjárfesta í tölvu nema auðvitað að einhver eigi gamla tölvu sem viðkomandi er tilbúinn að gefa mér. Þá þyrfti ég bara að fá mér nettengingu og þá get ég skrifað af lyst og endanlega farið á hausinn vegna hárra símreikninga. Æ nei, ég fæ örugglega ekki símanúmer því ég skulda gamlan símreikning. Djöh...... En af hverju vill enginn tala við hann Lance????




Auður Ösp kl.12:40 þann


#





úbbs að gefnu tilefni vil ég benda á að þetta er réttur linkur á hana Ásu www.spuunk.blogspot.com en ekki þetta sem ég setti inn 15.mars. Ég veit ekkert hver hinn gaurinn er. Þið verðið bara að fyrirgefa mér, ég er nú bara að læra á þetta allt saman



Auður Ösp kl.18:31 þann föstudagur, mars 21, 2003


#





Húrra húrra! Tókst að setja gestabók á síðuna. Hún er reyndar á vitlausum stað en það er betra en ekkert og þangað til mér tekst að finna betur út úr þessu. Ég er svo klár!!!!



Auður Ösp kl.17:55 þann


#





Jæja.... skapvonskan er eitthvað aðeins farin að dvína. Það er farið að birta yfir mér á ný og gott ef ég er ekki bara farin að brosa út í annað. Svona þegar enginn sér.

Ekkert skemmtilegt hefur gerst þessa síðustu daga þótt þetta skammdegisþunglyndi mitt hafi átt sínar spaugilegu hliðar. Reyndar fékk ég e-mail frá manni að nafni Lance í dag og veit ég ekkert hvar þessi maður fékk netfangið mitt. Hann er þrjátíu og þriggja ára þyrluflugmaður í bandaríska flughernum og hann er að koma til Keflavíkur í ágúst. Í mjög svo löngu máli útskýrði hann hvernig hann væri að leita að réttu íslensku stúlkunni til þess að fara með heim í bungalowið í Flórída. Greyið maðurinn lenti í einhverju veseni með eistun á sér og getur þess vegna ekki eignast fleiri börn en hann á 11 ára gamla dóttur sem heitir Ashley. Þannig að ef ég væri tilbúin að ættleiða með honum barn sem við myndum ala upp sem okkar eigið væri það frábært. Hann hefur áhuga á útivist og hefur gaman af því að kúra fyrir framan arininn með réttu stúlkunni. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef ekki mikin áhuga. Bara það að maðurinn skuli hafa boðið sig fram til að vera í her er nóg til þess að ég afþakki svo ég minnist nú ekki á aldurinn og eistnavandamálið. En ef það er einhver þarna úti sem hefur áhuga þá er ég með netfangið hjá honum.

Ég var að átta mig á því að titillinn á þessari síðu er eitthvað að misskilja sig. Í fyrsta lagi er ekki mikill friður í heiminum þessa stundina. Svo er engin ást í spilunum þegar að ég er annars vegar og ég held barasta að ég sé orðin afhuga áfengi. Allavega hef ég ekki djammað í heila... *hugsihugsihugs*.... 13 daga og er ekki að fara að djamma um helgina heldur. En á hinn bóginn þá óska ég einskins frekar en frið á jörð.... ég er ástfangin af tilhugsununni um að vera ástfangin og ég hef drukkið nóg áfengi um ævina til að halda heilum þjóðflokki drukknum í viku svo kannski að þetta sé í lagi. Þegar ég verð búin að uppgötva hvernig ég á að setja gestabók inn á síðuna mína getið þið svarað þessum spurningum sem ég varpa fram í tíma og ótíma og ég tala nú ekki um ef þið viljið kynnast hinum eistnalausa Lance.



Auður Ösp kl.16:02 þann


#





Tíminn líður hratt á gervihnattaöld..... það er bara kominn miðvikudagur. Gærdagurinn var hörmung frá A til Ö, það fór allt úrskeiðis sem hugsanlega gat farið úrskeiðis og ég fór að sofa með kreppta hnefa í gærkveldi. Vaknaði svo í morgun enn fokreið og mér hefur ekki tekist að hrista vonda skapið af mér ennþá. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá þurfti ég að fara tveimur tímum fyrr í vinnuna í morgun til að mæta á skemmtinefndarfund vegna árshátíðarinnar. Hvernig mér datt í hug að bjóða mig fram í þessa vitleysu skil ég ekki en ég verð víst bara að súpa seyðið af þessari heimsku minni og reyna að vera sniðug. Oj bara!

Það sem gerði daginn í gær svona vondan var röð aðburða sem hafa nú sannfært mig um að á mér hvíli bölvun. Ég hef stundum haldið því fram að ég sé í raun af sígunaættum og þessi bölvun styrkir þá kenningu mína. Einhver sígunaættingi minn hefur gert öðrum síguna eitthvað til miska og sá hinn sami hefur lagt bölvun á ættingja minn. Eða kannski er þetta bölvunin sem sígunakellingarnar í Malaga lögðu á mig í sumar þegar ég vildi ekki kaupa af þeim bévítans greinarnar. Það útskýrir samt ekki óheppni mína áður en ég fór í þessa dagsferð til Malaga en ég er viss um að sígunar koma málinu eitthvað við.

Það sem gerðist var þetta:
1) Systur mínar báðar náðu sér í inflúensu og ég þurfti að skemmta annari þeirra í allan gærdag og missti þar með af enn einum spænskutímanum. Á þeim þremur mánuðum sem ég hef verið í skráð í spænskutíma í kvöldskólanum er ég búin að mæta í 4 tíma og ég hefði alveg eins getað hent þessum 17500kr sem ég borgaði fyrir þetta út um gluggan. Að sjálfsögðu er systir mín mér meira virði en spænskukennslan og skrópaði ég glöð fyrir hana. En samt pirrelsi!
2) Einhver afglapi (ÉG!!!) setti fallega bangsímon skartgripaskrínið mitt á gólfið inni í herberginu mínu og til að gera langa sögu stutta segi ég bara: Hvíl í friði Bangsímon
3) Afglapanum tókst með miklum tilþrifum að læsa baðherbergishurðinni þótt enginn væri þar inni og uppgötvaðist það þegar að sjúklingurinn var alveg í spreng og hljóp fram á klósett. Þar kom sjúklingurinn að læstum dyrum og endaði með að afglapinn þurfti að bruna með hann upp í Árbæ til að koma honum á klósettið. Sambýlingur afglapans náði að lokum að spenna upp hurðina og er nú hægt að skreppa á salernið aftur á heimilinu.
4) Það er langur aðdragandi að þessum fjórða lið sem verður hér útlistaður í stikkorðum. Við eigum þvottavélargarm og þarf að tæma hann og setja í þeytivindu handvirkt. Þegar við fengum hana og ég var að bera hana upp á fjórðu hæð tókst mér að flækja mig í sjálfri mér á milli fyrstu og annarar hæðar og varð undir þvottavélinni. Mikið búið að hlæja af baráttu minni við þvottavélina. Hún tók upp á því að lita allan hvíta þvottinn minn kúkabrúnan og gráa vinnuskyrtan mín er núna grænyrjótt. Auk þess var hún geymd lengi vel í hesthúsi og angaði íbúðin af hrossataði í viku eftir að við fengum hana.... svo fátt eitt sé nefnt. Í gær ákvað hún svo að eyðileggja vinnubuxurnar mínar en þær flæktust líklega í þeytivindunni sem varð til þess að það eru tvö brunagöt á þeim. Þetta er á meðan ég man vinnubuxur númer tvö en þær fyrri eyðilagði ég þegar ég datt um bandspotta á lagernum. Hel****s þvottavél!!!
5) Sorglegasti liður þessarar upptalningar. Móðir mín, blessunin, fór með mér í búð í gær og keypti handa mér pils fyrir árshátíðina. Svo ætlaði ég að sýna handlagna sambýlingnum hvað ég væri fín í nýja pilsinu og tókst einhvern veginn að eyðileggja rennilásinn. Nýja fallega pilsið mitt er ónýtt....

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir þessum óförum og hallast ég frekar á gráturinn í augnablikinu.



Auður Ösp kl.13:57 þann miðvikudagur, mars 19, 2003


#





Laugardagur.... úff hvað það er leiðinlegt að vinna um helgar! Þegar ég kom heim til mín í gærkvöldi eftir enn einn frábæran dag í vinnunni var ég alveg glorhungruð. Ég henti af mér yfirhöfninni og hljóp beint inn í eldhús til að kanna lagerstöðuna. Því miður var birgðarstaðan í búrinu frekar fátækleg eins og reyndar staðan á reikningnum mínum. Allt sem ég á í þessum heimi eru 134kr og nokkrar evrur þannig að ég gat alveg útilokað allt skyndifæði. Núna hef ég smá efasemdir um litla ævintýrið mitt í London... þótt það hafi verið gaman að eyða peningum í ný föt og vitleysu er ekki jafngaman að bíða eftir mánaðamótunum. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjárhagsstaðan er ekki eins og best verður á kosið, eins og Ása vinkona mín sagði einu sinni: "Peningar skilja okkur ekki"

En aftur að gærkvöldinu. Ég henti mér í náttföt og bretti upp ermar á þeim og hófst handa við að finna mér eitthvað ætilegt. Ég fór í búrið sem er mjög myrkvað þar sem ég gleymi alltaf að kaupa peru og fann þar pasta, niðursoðna tómata og meira að segja einn lauk. Ég henti pastanu í pott, skar niður laukinn og henti á pönnu og svo var ég bara stopp. Ég fæ líklega aldrei nein svona húsmóðurverðlaun því ég er 22 ára gömul og ég kann ekki ennþá á dósaopnara. Ég missi alltaf lokið ofan í dósina, það er að segja í þau fáu skiptu sem ég næ að opna dósirnar án vandkvæða. Svo var laukurinn orðinn helst til of mikið steiktur þannig að ég brá á það ráð að henda niðursoðnu tómötunum á pönnuna líka. Þetta voru sum sé fimm heilir tómatar þannig að ég varð að reyna að búta þá niður eftir að ég var búin að setja þá út á pönnuna. Það gekk. Svo fann ég ólívur í ískápnum sem ég skar niður og henti út í sullið. Þessi sósa mín bragðaðist ekkert of vel og ég bara kunni engin ráð til að bæta hana þannig að ég ákvað bara að prófa að setja tómatmauk út í líka. Ekki góð hugmynd. Svo setti ég slatta af einhverjum kryddum út í maukið. Ekki góð hugmynd heldur. Á endanum þegar að sú alháværasta garnagaulssinfonía sem ég hef heyrt var búin að syngja sitt síðasta ákvað ég að sletta bara smá Libbys út í og vona það besta. Svo var ég augljóslega með of mikinn hita undir pottinum því sósan byrjaði að bulla og nú eru tómatssósu slettur um alla veggi inni í eldhúsi. Pasta er þannig matur að hvaða illi sem er á að geta matreitt hann en mér tókst að búa til alveg með eindæmum vont pasta sem ég varð svo að borða af því að ég var svo svöng og átti engan pening. Ekki nóg með það heldur neyddist ég til að taka afganginn með mér í vinnuna í morgun af því að maður á ekki að henda mat og svo var það annað hvort pastað eða.... ja ekkert. Það er böl að vera eyðslusjúkt ungmenni sem kann ekki að elda, ég get sko alveg sagt ykkur það!



Auður Ösp kl.14:55 þann laugardagur, mars 15, 2003


#





Ég var að lesa síðuna hjá henni Gerði vinkonu minni og þar staðhæfir hún að eftir lestur á hennar síðu eigi manni að líða betur með sitt líf. Ég skal viðurkenna það að hún Gebba litla er mikill ólukkupési en ég held því fram að ég sé enn óheppnari en hún. Það er samt mikil huggun í því að lesa hrakafarasögurnar af henni því það sannar, þvert á það sem vinir mínir halda fram, að það eru fleiri eins og ég til þarna úti. Kannski að við Gerður ættum að stofna einhver svona samtök í anda AA til að styrkja hvor aðra og komast í kynni við fleiri óheillakrákur.

Senn fer að líða að árshátíð í litla fyrirtækinu sem ég vinn í og hefur það verið ákveðið að hver deild eigi að koma með skemmtiatriði. Á síðustu skemmtun var mín deild með málsháttaatriði sem heppnaðist alveg ágætlega þótt ég hafi nú ekki haft mikla trú á því til að byrja með. Hvað er fyndið við að fólk lesi upp málshætti? En það voru nokkur smellin augnablik í þessu ágæta atriði og reyndust áhyggjur mínar óþarfar. Síðasta föstudagskvöld bauð deildarstjórinn minn okkur heim til sín í öl og með því og var tilgangur fundarins að finna uppá atriði aldarinnar. Eins og við mátti búast voru hugmyndirnar ekki margar og höfðum við satt að segja meiri áhuga á veitingunum. En í lok kvöldsins urðu allir sammála um stórsniðugt atriði og það var bara ákveðið. Ég veit ekki hvernig mér líst á þetta mál allt saman því það er ÉG sem er atriðið. Já, vinnufélagar mínir ákváðu að á árshátíðarkvöldið eigi ég að stíga á stokk í mínu fínasta pússi og segja sögur af óförum mínum í útlöndum. Þannig að ég verð bara að gjöra svo vel að leggja höfuðið í bleyti og henda saman í stutt prógramm útlandasögum af sjálfri mér. Þeir sem að þekkja mig vita að það er af nógu að taka en er ekki nóg að ég hafi þurft að lenda í öllum þessu hrakningum? Er ekki full gróft að láta mig standa upp fyrir framan hóp af fólki eftir að hafa eytt ómældum tíma og fyrirhöfn í að punta mig og láta mig endurlifa þessa atburði? Ok, ok, ég er kannski full dramatísk en að öllu gamni slepptu þá finnst mér það segja meira en mörg orð um mína seinheppni að ÉG sé skemmtiatriði fyrir heila deild á árshátíð!!! Gerður, geturðu slegið þetta út???



Auður Ösp kl.16:13 þann fimmtudagur, mars 13, 2003


#





Jæja... þá er ég orðin eins og allir hinir. Vinkonur mínar, sem virðast allar vera tæknivæddari en ég, eru allar búnar að koma sér upp þessum fínu bloggsíðum og svo virðist vera að ég sé ekki nógu "kúl" af því að ég hef ekki verið að viðra mínar skoðanir á netinu. Nú, ég tek því ekkert þegjandi þegar "kúlið" mitt er dregið í efa og hef því ákveðið (þrátt fyrir að hafa ekki hundsvit á þessu) að láta bara vaða. Ef þær geta þetta, get ég þetta líka!!! Kannski ætti ég að breyta nafninu á síðunni í þrjóskuhaus.blogspot ja eða kannski (s)auður.blogspot þar sem ég heiti Auður og er sauður sem eltir hjörðina í þessu blogg máli. Þetta er allavega umhugsunarvert



Auður Ösp kl.15:22 þann


#









.Daz Gebbz. .Ázta. .Early. .Áza. .Znóra. .Cliff. .Ziggy.


  • mars 2003
  • apríl 2003
  • maí 2003
  • júní 2003
  • júlí 2003
  • ágúst 2003
  • september 2003
  • október 2003
  • nóvember 2003
  • desember 2003
  • janúar 2004
  • febrúar 2004
  • mars 2004
  • apríl 2004
  • maí 2004
  • júlí 2004
  • október 2004
  • nóvember 2004
  • desember 2004
  • janúar 2005
  • febrúar 2005
  • maí 2005
  • ágúst 2005
  • mars 2007